Velta á íslenska hlutabréfamarkaðnum nam 15,6 milljörðum króna í dag. Það skýrist einkum af lokunaruppboði en á mánudaginn tekur gildi aukin vigt fimmtán félaga á aðalmarkaðnum í vísitölum FTSE Russell vegna uppfærslu Íslands í flokk nýmarkaðsríkja (e. Secondary Emerging Markets).

Af áðurnefndri veltu fóru 14 milljarða viðskipti fram í pöruðum viðskiptum á lokamínútum markaðarins.

Vigt íslenska markaðarins í vísitölunum er færð upp í þremur skrefum; hið fyrsta var þann 19. september sl., annað skrefið verður á mánudaginn, 19. desember, og síðasta skrefið 20. mars næstkomandi.

Í aðdraganda hvers skrefs fer fram umfangsmikil sala til erlendra vísitölusjóða. Við fyrsta skrefið í september var sem dæmi 14 milljarða velta í 337 viðskiptum sem áttu sér stað á aðeins hálfri mínútu í svokölluðu lokunaruppboði.

„Vísitölusjóðir vilja ekki bara eiga viðskipti á síðasta degi fyrir uppfærsluna, heldur vilja þeir helst eiga viðskipti í lokunaruppboðinu og tryggja sér þannig lokaverðið á markaðnum því það minnkar frávik frá vísitöluviðmiðinu,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, í viðtali við Viðskiptablaðið í kjölfar fyrstu uppfærslunnar.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,2% í viðskiptum dagsins en flest félög á lista FTSE Russell lækkuðu í dag. Gengi VÍS lækkaði mest eða um 5% í 440 milljóna veltu í dag. Mesta veltan, eða um 3,4 milljarðar, var með hlutabréf Arion banka sem lækkuðu um 2,6%. Hlutabréf Marels hækkuðu um 0,4% í 3,1 milljarðs króna viðskiptum.

Félög á lista FTSE Russell

Félag Stærðarflokkun Velta í dag Gengi Breyting
Arion banki Stórt 3,4 ma. kr. 151,50 -2,57%
Íslandsbanki Stórt 2,0 ma.kr. 120,20 -1,31%
Marel Stórt 3,1 ma.kr. 499,00 +0,40%
Eimskip Meðalstórt 820 m.kr. 515,00 -0,96%
Festi Meðalstórt 672 m.kr. 180,00 -1,64%
Hagar Meðalstórt 976 m.kr. 72,50 -1,36%
Icelandair Meðalstórt 667 m.kr. 1,70 -0,12%
Kvika banki Meðalstórt 1,3 ma. kr. 19,30 -3,50%
Reitir Meðalstórt 893 m.kr. 90,00 -1,10%
Síminn Meðalstórt 328 m.kr. 10,50 -0,94%
Origo Lítið 57 m.kr. 100,00 -1,96%
Sjóvá Lítið 652 m.kr. 33,00 -2,37%
VÍS Lítið 439 m.kr. 17,10 -5,00%
Iceland Seafood Örlítið 2 m.kr. 6,15 -1,60%
Sýn Örlítið 36 m.kr. 60,00 0,00%