Gjaldþrotaskiptum Mat bar ehf., sem rak samnefndan veitingastað í Reykjavík, er lokið og var 157,7 milljónum lýst í búið.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins heldur þó rekstur samnefnds veitingastaðar við Hverfisgötu áfram en annað félag hefur tekið yfir reksturinn.
Samkvæmt lögbirtingablaði voru engar eignir í búinu og fengu kröfuhafar enga greiðslu upp í lýstar kröfur.
Meirihlutaeigandi í Mat bar ehf. var félagið Nicy Spicy ehf. en endanlegir eigendur þess eru meðal annars Eggert Gíslason Þorsteinsson, Hrafnkell Sigríðarson og Egill Pietro Gíslason.
Egill Pietro Gíslason er þekktur veitingamaður í Reykjavík en hann hefur einnig komið að rekstri Dragon Dimsum og taco-staðarins MB Taqueria.
Þá átti félagið Uptown ehf. um 30% hlut í félaginu en endanlegur eigandi þess er Þórir Jóhannsson, sem átti meðal annars skemmtistaðinn Kíki á árunum 2014 til 2024.
Þórir hefur um árabil verið tengdur veitingarekstri með einum eða öðrum hætti - m.a. á Sólon Bistro, Matbar á Hverfisgötu, Dragon Dim Sum, Kiki QB, Menam á Selfossi, Risinu í Mathöllinni á Selfossi og fleiri stöðum.
Minnihlutaeigendur í félaginu var meðal annars BNB Consulting, sem er í eigu Bernharðs Bogasonar.
Eignarhaldsfélagið Eitt Hótel ehf., átti síðan um 8% hlut í Mat bar en félagið er í jafnri eigu viðskiptafélaganna Fannars Ólafssonar og Andra Gunnarssonar.
Samkvæmt síðasta ársreikningi Mat bar frá árinu 2022 námu tekjur félagsins 209 milljónum króna en tap í rekstrinum nam 24 milljónum króna. Eigið fé félagsins var neikvætt um 33 milljónir og var eiginfjárhlutfall -59%.