Hótelsamstæðan Berjaya Hotels Iceland hf., sem hét áður Icelandair Hotels, tapaði 1.636 milljónum króna á síðasta fjárhagsári sem náði frá 1. júlí 2023 til 30. júní 2024. Til samanburðar tapaði samstæðan 1.656 milljónum á reikningsárinu 2021-2022.
Eigið fé samstæðunnar var neikvætt um 753 milljónir króna í lok júní 2024, að því er kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.
Hætta á rekstrarhæfi ef áætlanir ganga ekki eftir
Eigendur samstæðunnar veittu félaginu víkjandi lán að fjárhæð 1,5 milljarðar króna á síðasta reikningsári. Á síðustu þremur fjárhagsárum hafa eigendur hótelfélagsins veitt því víkjandi lán upp á 3,6 milljarða króna, auk þess sem þeir hafa gefið út yfirlýsingu um áframhaldandi fjárhagsstuðning út 30. júní næstkomandi ef þörf er á.
„Stjórnendur halda áfram að grípa til aðgerða til að milda uppsöfnuð áhrif Covid-19 faraldursins frá fyrri árum og eldvirkni í Grindavík, með það að markmiði að tryggja greiðslugetu og áframhaldandi rekstrarhæfi samstæðunnar. Fjárhagsáætlun stjórnenda fyrir fjárhagsárið 2024-2025 gerir ráð fyrir verulegum viðsnúningi í rekstri,“ segir í ársreikningi félagsins.
„Þrátt fyrir bjartsýni stjórnenda, er hætta á rekstrarhæfi samstæðunnar ef áætlanir stjórnenda ganga ekki eftir.“
Stjórnendur félagsins telja að rekstrarhæfi félagsins til næstu 12 mánaða sé ekki ógnað, í ljósi fjárhagsstöðu félagsins og þeirra mótvægisaðgerða sem gripið hefur verið til.
Stóðst ekki lánaskilmála
Rekstrartekjur samstæðunnar jukust um 15% milli ára og námu tæplega 16,6 milljörðum króna á síðasta fjárhagsári. EBITDA hagnaður félagsins jókst um fjórðung milli ára og nam 4 milljörðum króna.
„Fjárhagsárið 2023-2024 hófst á jákvæðum nótum. Eldvirkni í Grindavík, sem hófst í nóvember 2023, hafði hins vegar veruleg áhrif á afkomu félagsins. Að auki stuðluðu óhagstæðir vextir og verðbólga enn frekar að neikvæðum áhrifum á félagið,“ segir í skýrslu stjórnar.
Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á 46,9 milljarða í lok júní síðastliðins, samanborið við 47,8 milljarða ári áður. Eigið fé samstæðunnar var neikvætt um 753 milljónir í lok júní 2024. Handbært fé var 359 milljónir og veltufjármunir að frádregnum skammtímaskuldum voru neikvæðir um 7,4 milljarða.
Þá voru eignir móðurfélagsins færðar til bókar á 57,7 milljarða á sama tíma. Eiginfjárstaða móðurfélagsins var neikvæð um 1,7 milljarða króna í lok júní 2024.
Af tæplega 39 milljarða króna langtímaskuldum samstæðunnar voru langtímalán frá lánastofnunum upp á 7,9 milljarða króna í lok júní 2024. Fram kemur að samstæðan stóðst ekki lánaskilmála í lok reikningsársins. Viðskiptabanki samstæðunnar samþykkti að falla frá skilyrðum miðað við 30. júní 2024.
Lykiltölur / Berjaya Hotels Iceland (samstæða)
2022-2023 | |||||||
14.371 | |||||||
11.154 | |||||||
3.216 | |||||||
627 | |||||||
-2.739 | |||||||
-1.656 | |||||||
47.757 | |||||||
-477 | |||||||
639 |
Malasíska félagið Berjaya Land Berhad, dótturfélag Berjaya Corporation, keypti íslenska hótelfélagið í tveimur lotum árin 2019-2021. Endanlegt kaupverð var í kringum 7 milljarðar króna en virði hótelkeðjunnar lækkaði töluvert vegna áhrifa Covid-faraldursins á reksturinn.
Hótelfélagið rekur tvær innlendar hótelkeðjur: Berjaya Iceland Hotels (sex hótel) og Eddu hótel (tvö hótel). Auk þess hefur félagið í sínum rekstri fjögur hótel í Reykjavík sem rekin eru í sérleyfissamningi við Hilton Worldwide, en þau eru Hilton Reykjavík Noridca, Canopy Reykjavík, Reykjavík Konsúlat hótel og Iceland Parliament Hotel. Einnig rekur félagið Alda Hotel Reykjavík.
Hótelfélagið tilkynnti í byrjun maí að það hafi nýtt samningsbundinn forleigurétt sinn við Reiti fasteignafélag að fasteignunum að Suðurlandsbraut 2, þar sem Hilton Reykjavík Nordica hótel er til húsa, og að Nauthólsvegi 52, þar sem Berjaya Reykjavík Natura hótel er staðsett. Reitir höfðu áður samið um að Íslandshótel myndu taka við rekstri hótelanna 1. október næstkomandi.