Hlutabréf í bönkunum í Kauphöllinni hafa hækkað í morgun í yfir tveggja milljarða króna veltu.
Mesta velta hefur verið með bréf Arion Banka en yfir 1,2 milljarða króna viðskipti voru með bréf bankans fyrir hádegi.
Gengi Arion banka hefur hækkað um tæp 2% í dag en gengi bankans hefur hækkað töluvert síðustu vikur og farið úr 127 krónum í byrjun nóvember upp í 139,5 krónur.
Sömu sögu er að segja af gengi Kviku banka sem stefnir í að hækka tíunda viðskiptadaginn í röð eftir um hálfs milljarðs króna veltu fyrir hádegi. Gengi bankans hefur farið úr 13,5 krónum í byrjun nóvember yfir í 15,25 krónur.
Þá hefur hlutabréfaverð Íslandsbanka hækkað um 2,4% það sem af er í degi í um 400 milljón króna veltu.
Gengi bankans hefur hækkað um tæp 6% síðastliðinn mánuð og stendur gengið í 109 krónum þegar þetta er skrifað.