Skiptum á búi 1910 ehf., áður VÖK Waters ehf., lauk í desembermánuði og var 212 milljón króna kröfum lýst í búið.
Samkvæmt úthlutunargerð voru allar forgangskröfur að fjárhæð 140 þúsund krónur samþykktar í búið en almennar kröfur námu 212 milljónum.
Skiptastjóri búsins tók enga afstöðu til almennra krafna og eftirstæðra krafna og kom ekkert til úthlutunar upp í forgangs- eða almennar kröfur.
Samkvæmt síðasta ársreikningi félagsins frá árinu 2022 hagnaðist 1910 ehf. um 18,1 milljón. Eignir voru bókfærðar á 31,5 milljónir og skuldir um 31,8 milljónir.
Félagið var alfarið í eigu Alfreðs Pálssonar sem hefur mikla reynslu af drykkjarvöruframleiðslu hérlendis.
Hann stofnaði m.a. Volcanic Drinks árið 2010 með Ragnari Tryggvasyni en félagið framleiðir íslenskt gin, vodka og viskí.
Alfreð var einnig um tíma meðeigandi að Icelandic Mountain Spirits en tilgangur félagsins var að framleiða sterkt áfengi úr íslensku vatni.
Hafþór Júlíus Björnsson, kraftlyftingamaður og leikari, var talsmaður fyrirtækisins og lék lykilhlutverk í markaðssetningu á Vodka félagsins.
Hafþór keypti hlut Alfreðs í fyrirtækinu í febrúar 2022.
Icelandic Mountain Spirits var tekið til gjaldþrotaskipta í júní 2023.
Leiðrétting:
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að forgangskröfur sem voru samþykktar í búið næmu 140 milljónum en rétt er að þær voru 140 þúsund krónur.