Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn tapaði 339 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins en þar af var 186 milljóna tap á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist félagið um 483 milljónir á fyrri árshelmingi 2023.

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn tapaði 339 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins en þar af var 186 milljóna tap á öðrum ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist félagið um 483 milljónir á fyrri árshelmingi 2023.

„Skýrist þessi munur helst af breytilegum tekjum af IoT þjónustu annars vegar og afskrifta sem voru lægri vegna endursamninga við birgja hins vegar, samtals uppá 706 [milljónir króna]“ segir í uppgjörstilkynningu sem Sýn birti eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Félagið segir að árangurinn á fyrri helmingi sé í fullu samræmi við forsendur afkomuspár fyrir árið 2024 sem félagið birti í byrjun júlí. Sú spá gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT), án leiðréttinga vegna einskiptiskostnaðarliða, verði á bilinu 900-1.100 milljónir króna.

„Stjórnendur félagsins telja því að full ástæða sé til að ætla að áætlun félagsins fyrir árið 2024 standist. Jafnframt gera stjórnendur ráð fyrir verulegum jákvæðum viðsnúningi á sjóðstreymi frá rekstri félagsins á seinni helmingi ársins.“

Félagið telur sig vera á réttri leið með að ná skilvirknimarkmiðum sínum um að skila 600-800 milljónum króna í rekstrarbata á ársgrundvelli á seinni árshelmingi. Gangi það eftir þá ætti rekstrarhagnaður félagsins á næsta ári að verða á bilinu 1,5-1,7 milljarðar án tillits til annara verkefna sem koma inn á því ári.

Tekjur samstæðunnar dragast saman

Tekjur Sýnar á fyrstu sex mánuðum námu 11.416 milljónum króna og drógust saman um 0,7% frá sama tímabili í fyrra. Sé einungis horft til annars ársfjórðungs þá nam tekjusamdrátturinn 2,7%.

„Sýn hefur náð góðum árangri á lykilsviðum. Tekjur af fjölmiðlastarfsemi og þjónustutekjur eru á góðri uppleið og við sjáum jákvæða þróun í fjölda viðskiptavina í IoT þrátt fyrir tímabundinn samdrátt í tekjum. Á þessu sviði eru fjölmörg spennandi tækifæri til vaxtar,“ segir Herdís Dröfn Fjeldsted, sem tók við sem forstjóri Sýnar í upphafi árs.

„Samanburður á fyrri helmingi ársins 2024 við sama tímabil 2023 tekur mið af nokkrum sértækum þáttum, meðal annars lægri IoT tekjum, hraðari afskriftum sýningarétta og jákvæðum áhrifum afskrifta í endursamningi við erlendan birgja á síðasta ári. Þessir þættir gera samanburð á milli ára nokkuð flókinn.

Einnig er vert að nefna að rekstrarniðurstaða félagsins er lituð af of mikilli yfirbyggingu þar sem sameiningar fyrri ára hafa ekki komið að fullu til framkvæmda en við höfum lagt höfuðáherslu á verkefni sem efla samvinnu þvert á félagið, auka skilvirkni og vöxt.“