Skagi, móðurfélag VÍS og Fossa, hagnaðist um 427 milljónir króna eftir skatta á þriðja ársfjórðungi, samanborið við 607 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra. Skagi birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.
Í uppgjörstilkynningu Skaga kemur fram að ávöxtun af fjárfestingum hafi verið undir viðmiði á fjórðungnum en það stafi af stærstum hluta af vægi óskráðra hlutabréfa í safninu og áhrifum af lækkun á virði Controlant.
Virði eignarhlutar VÍS í Controlant var fært niður um 417 milljónir króna, eða um 63% á fjórðungnum.
Verðmatið byggir á því að gengi hlutabréfa Controlant sé 30 krónur á hlut, sem samsvarar áskriftargengi í nýafstaðinni hlutafjáraukningu tæknifyrirtækisins, en til samanburðar miðaði VÍS við gengið 80 krónur í uppgjöri sínu fyrir annan ársfjórðung.
Tekjur af tryggingastarfsemi jukust um 9,8% á milli ára og námu 7,6 milljörðum króna á fjórðungnum. Afkoma af vátryggingasamningum nam 590 milljónum á síðasta fjórðungi, samanborið við 368 milljónir á þriðja fjórðungi 2023.
Afkoma af fjármálastarfsemi samstæðunnar var neikvæð um 31 milljón króna fyrir skatta en jákvæð um 76 milljónir eftir skatta. Eignir í stýringu námu 123 milljörðum króna í lok fjórðungsins.
Skili ríflega 500 milljóna afkomubata
Fram kemur að Skagi hafi nýverið ráðist í aðgerðir sem miða að því að lækka árlegan rekstrarkostnað samstæðunnar um 300 milljónir króna. Samhliða horfir félagið til þess að ná fram árlegri kostnaðarsamlegð í fjármálastarfsemi um ríflega 220 milljónir með innkomu Íslenskra verðbréfa í samstæðuna.
„Samanlagt eiga þessar aðgerðir að skila samstæðunni ríflega 500 milljóna afkomubata horft fram á veginn.“