Þrír af hverjum fjórum Íslendinga telur að aukinn áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi og norðurslóðum feli í sér ógn fyrir Íslandi. Aðeins 12% Íslendinga telur að þessi þróun feli í sér tækifæri fyrir Ísland. Þetta eru meðal niðurstaðna nýrrar könnunar Gallup.

Gallup lagði fyrir tvær spurningar varðandi aukinn áhuga Bandaríkjanna á Grænlandi fyrir landsmenn. Annars vegar var spurt um hvort viðkomandi telur þennan aukna áhuga Bandaríkjamanna á Grænlandi vera tækifæri eða ógn fyrir Ísland.

Tólf prósent landsmanna sjá tækifæri, þar af telja 4,2% svarenda mikil tækifæri. Hins vegar telja 37,5% svarenda mikla ógn stafa af þessari þróun og 36,2% telja nokkra ógn vera uppi vegna þessara mála.

Karlar eru líklegri til að sjá tækifæri í stöðunni og þeir svarendur sem eru tekjuhærri, að því er segir í frétt á vef Gallup. Þá eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins líklegri en aðrir til að sjá tækifæri í stöðunni.

Telur þú að aukinn áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi og norðurslóðum sé tækifæri eða ógn fyrir Ísland?

>

Your browser does not support the canvas element. This canvas shows a chart with the title Telur þú að aukinn áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi og norðurslóðum sé tækifæri eða ógn fyrir Ísland?

86% líst illa á að Grænland verði hluti af Bandaríkjunum

Gallup spurði landsmenn einnig út í hversu vel eða illa þeim lítist á að Grænland verði hluti af Bandaríkjunum, í ljósi áhuga Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Ríflega 86% Íslendinga líst illa á hugmyndina um að Grænland verði hluti af Bandaríkjunum á meðan rúmlega 5% landsmanna líst vel á það.

Afgerandi meirihluti eða 80,2% sagðist lítast mjög illa á þann möguleika og 6,2% frekar illa. Um 8,2% svarenda svaraði með hlutlausum hætti, 4,2% sagðist lítast frekar vel á hugmyndina og 1,3% mjög vel.

Hversu vel eða illa líst þér á að Grænland myndi verða hluti af Bandaríkjunum?

>

Your browser does not support the canvas element. This canvas shows a chart with the title Hversu vel eða illa líst þér á að Grænland myndi verða hluti af Bandaríkjunum?

Ekki er marktækur munur eftir aldri svarenda en körlum líst betur á hugmyndina en konum, Reykvíkingar eru neikvæðari en aðrir landsmenn og þeir svarendur með hæstu fjölskyldutekjurnar eru jákvæðari en aðrir.

Líkt með fyrri spurninguna eru kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins jákvæðari gagnvart hugmyndinni en kjósendur annarra flokka.

Um er að ræða netkönnun sem var framkvæmd dagana 7.-17. febrúar. Í úrtakinu voru 1.717 manns og þar af svöruðu 844. Þátttökuhlutfall var því 49,2%.