Samkvæmt könnun Gallups um formannskjör Sjálfstæðisflokksins, sem gerð var fyrir Þjóðmál dagana 9. til 21. janúar, nýtur Áslaug Arna gríðarlegs fylgis meðal fólks undir þrítugu.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í dag vilja flestir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins sjá Áslaugu Örnu sem næsta formann flokksins en hún er með um 39% fylgi.
Ef niðurstöðurnar eru skoðaðar meðal landsmanna allra, ekki einungis kjósenda Sjálfstæðisflokksins, er Þórdís Kolbrún með mesta fylgið eða 32% fylgi.
Áslaug Arna kemur þar á eftir með 24% fylgi, Guðlaugur með 19% og Guðrún með 12% fylgi.
Þórdís Kolbrún tilkynnti í gær að hún muni ekki gefa kost á sér í embættið.
Það vekur athygli að Áslaug Arna er með um 53% stuðning meðal ungs fólks, á aldrinum 18 til 29 ára.
Þórdís Kolbrún kemur þar á eftir með 26% fylgi, Guðlaugur Þór með 10% en Guðrún er aðeins með 1% fylgi hjá ungu fólki.
Ef kjördæmi eru skoðuð hjá þeim sem enn koma til greina í embættið leiðir Áslaug Arna í öllum kjördæmum nema Norðvesturkjördæmi þar sem Guðlaugur Þór fær 23% fylgi og Áslaug Arna 17% fylgi.
Áslaug er til að mynda með 26% fylgi í Suðurkjördæmi sem er meira fylgi en Guðrún, oddviti flokksins í kjördæminu, sem er með 21% fylgi.
Þátttakendur höfðu val um alla þá fimm einstaklinga sem gegnt höfðu embætti ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn á síðasta kjörtímabili nema Bjarna Benediktsson sem tilkynnti í byrjun mánaðar að hann muni ekki taka sæti á þingi né heldur gefa kost á sér í næsta formannskjöri Sjálfstæðisflokksins.
Fastlega er búist við að Áslaug Arna bjóði sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins. Jafnframt er talið líklegt að Guðrún gæti boðið sig fram en nokkur Sjálfstæðisfélög úr kjördæmi hennar hafa hvatt hana til að fara fram.
Könnunin var gerð fyrir Þjóðmál dagana 9. til 21. janúar. Könnunin var netkönnun, úrtakið 2.877, fjöldi svarenda 1.420 og svarhlutfall 49,4%.