Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar, þ.e. þeirrar starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum, var neikvæð um 1,1 milljarð króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024, samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri.

„Útkomuspá A-hluta fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu ársins sem nemur um 531 m.kr. Ekki eru horfur á öðru en það gangi eftir,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Fjárhagsáætlun með viðaukum gerði ráð fyrir 5,5 milljarða afgangi á A-hlutanum á fyrstu níu mánuðum ársins. Niðurstaðan er því tæplega 6,6 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir.

Borgin segir að helstu frávik megi rekja til lægri staðgreiðslu útsvars, tilfærslu á sölu eigna og byggingaréttar á milli tímabila, útgjalda á velferðarsviði vegna þjónustuþyngdar barnaverndar og áhrifa verðbólgu á fjármagnsliði.

Tekjur A-hlutans jukust um 8,4% milli ára og námu 141 milljarði króna, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir yfir 144 milljörðum í tekjur. Staðgreiðsla útsvars var 2,8 milljörðum undir áætlun. Rekstrarútgjöld námu 131,8 milljörðum samanborið við áætlun upp á 128,8 milljarða.

Afborganir lána og leiguskulda hjá A-hlutanum námu 10,5 milljörðum króna. Veltufé frá rekstri var 10,6 milljarðar og nam 7,5% í hlutfalli af tekjum.

1,6 milljarða afgangur af A- og B-hluta

Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 1,6 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins. Til samanburðar var halli af A- og B- hluta upp á 2,9 milljarða á sama tímabili í fyrra.

Afkoman var hins vegar 8,7 milljörðum lægri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.