Heimar hf. skilaði 1,1 milljarðs króna hagnaði á fyrri árshelmingi 2025 og hækkaði afkomuspá sína í kjölfar tveggja stórra fasteignakaupa.
Félagið áætlar nú bæði hærri leigutekjur og rekstrarhagnað en áður, þar sem nýjar eignir munu auka tekjustreymi á komandi árum.
Samkvæmt uppgjöri félagsins námu rekstrartekjur 7,6 milljörðum króna á fyrri árshelmingi, þar af voru leigutekjur 7,2 milljarðar, sem er 4,9% aukning frá sama tímabili í fyrra. EBITDA nam 5,1 milljarði og hækkaði um 4,5%, en hagnaður félagsins dróst saman og nam 1,1 milljarði samanborið við 4,3 milljarða í fyrra.
Kaupin á Grósku og Exeter-hótelinu á öðrum ársfjórðungi hafa hins vegar veruleg áhrif á framtíðarafkomu.
Félagið áætlar nú að leigutekjur 2025 verði 15,2–15,5 milljarðar og EBITDA 10,8–11,1 milljarðar, sem er hækkun frá fyrri spám.
Auk þess er gert ráð fyrir að tekjur núverandi eignasafns fyrir næstu tólf mánuði muni nema 16,4–16,7 milljörðum króna.
„Rekstur gengur vel og í kjölfar tveggja stórra viðskipta á fyrri hluta árs hefur afkomuspá félagsins verið uppfærð. Leigutekjur eru nú áætlaðar 15.200-15.500 m.kr. og EBITDA 10.800-11.100 m.kr. á árinu 2025.
Við finnum fyrir sterkri eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði. Tekjuvöxtur leigutekna er 4,9% miðað við sama tímabil í fyrra. Breyting á eignasafni hefur jákvæð áhrif á tekjuvöxt milli ára, en raunvöxtur á sambærilegu eignasafni milli ára er 0,3%,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima.
Virði fjárfestingareigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 212.955 m.kr. Safnið samanstendur nú af 97 fasteignum sem alls eru um 389 þúsund fermetrar.
Handbært fé frá rekstri var 2,3 milljarðar króna og nam handbært fé félagsins alls 3,4 milljörðum í lok júní. Vaxtaberandi skuldir stóðu í 131,2 milljörðum króna, eiginfjárhlutfall var 32,2% og skuldahlutfall 61,6%.
Fjárhagsstaða félagsins er sterk og fjárhagsleg skilyrði innan marka lánaskilmála, eiginfjárhlutfall 32,2% (skilyrði 25%).
Í lok tímabilsins var handbært fé 3.395 m.kr. og auk þess hafði félagið aðgang að ónýttum lánalínum að fjárhæð 2.700 m.kr. í lok tímabilsins.
Bankalán sem voru á gjalddaga 2026 hafa verið endurfjármögnuð og færist lokagjalddagi þeirra til ársins 2031.
Útleiguhlutfall félagsins var 97% í lok annars ársfjórðungs. Alls voru gerðir 36 nýir leigusamningar fyrir um 17.290 fermetra, þar á meðal við Öldung, Samherja, Eflu og Arctica Finance.
Öll rými í nýrri mathöll í Smáralind hafa verið útleigð og opnun hennar er fyrirhuguð á næstu mánuðum. Þá opnaði Starbucks nýtt kaffihús á Hafnartorgi, það stærsta á Íslandi til þessa.