Héraðssaksóknari hefur ákveðið að fella niður rannsókn vegna kæru Vítalíu Lazareva á hendur Þórði Má Jóhannessyni, Ara Edwald og Hreggviði Jónssyni.
Hreggviður Jónsson hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins. Þar staðfestir hann að héraðssaksóknari hefur hætt rannsókninni.
Í yfirlýsingunni segir :
„Ég get staðfest að héraðssaksóknari hefur tekið ákvörðun um að hætta rannsókn vegna kæru Vitaliu Lazarevu á hendur mér.
Sú niðurstaða kemur mér ekki á óvart enda hef ég frá upphafi sagt að ég hafi ekki gerst brotlegur við lög. Ég mun ætíð sjá eftir því að hafa ekki stigið út úr umræddum aðstæðum en líkt og fram hefur komið þá var frumkvæðið þeirra tveggja, Arnars Grants og Vitaliu.
Atburðarás síðustu mánaða hefur verið erfið og á köflum fjarstæðukennd. Afleiðingarnar af þessu máli hafa verið miklar, ekki síður fyrir þau sjálf, en einnig marga aðra. Þetta mál hefur tekið mikið á mig og fjölskyldu mína og það er því léttir að því sé lokið.“