Teresa Ribera, nýr fram­kvæmda­stjóri sam­keppnis­mála innan Evrópu­sam­bandsins, segir að það verði að ein­falda reglu­verkið um sam­keppnis­mál innan ESB.

Í ræðu í Brussel í morgun sagði Ribera að það sé þörf á að taka til­lit til nýsköpunar og framtíðar­markaða ef Evrópulöndin ætla að vera sam­keppnis­hæf.

„Evrópsku reglurnar um sam­runa og yfir­tökur eru lykil­verk­færi til að halda uppi sann­gjörnum markaði. Í dag þegar við skoðum sam­runa tökum við til­lit til nýsköpunar, sveigjan­leika og sjálf­bærni en við verðum að ganga lengra,“ sagði Ribera en Financial Times greinir frá.

„Við þurfum að ganga lengra því ákvarðanir okkar í dag hafa ekki bara áhrif á markaðinn eins og hann er núna heldur einnig eins og hann verður í framtíðinni. Við þurfum að taka fullt til­lit til nýsköpunar, framtíðar­sam­keppni og huga að þörf fyrir sveigjan­leika í ýmsum geirum eins og orku, varna­málum og geim­vísindum.“

Þá sagði hún einnig þörf á að hraða fjár­festingu í grænum verk­efnum.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur greint frá er Evrópu­sam­bandið í tölu­verðum vand­ræðum.

Christine Lagar­de, for­seti Evrópska seðla­bankans, sagði nýverið að ríki evru­svæðisins muni að öllu óbreyttu ekki geta staðið undir „rausnar­legum vel­ferðar­sam­félögum, mikilvægum fjár­festingum og tæklað loft­lags­vandann“ ef þau snúa ekki við þeim stöðuga sam­drætti sem hefur verið að hrjá svæðið.

„Við þurfum að aðlagast fljótt að breyttu um­hverfi og endur­heimta tapaða sam­keppnis­hæfni og nýsköpun,“ sagði Lagar­de í lok nóvember.

Joachim Nagel, for­seti þýska Seðla­bankans og stjórnar­meðlimur Evrópska Seðla­bankans, tók í sama streng í ræðu í Tókýó degi á undan Lagarde.

Nagel sagði heiminn vera á barmi þess að sundrast efna­hags­lega.

„Þessi þróun er áhyggju­efni og við ættum öll að vinna að því að endur­reisa frjáls við­skipti,“ sagði Nagel.