Teresa Ribera, nýr framkvæmdastjóri samkeppnismála innan Evrópusambandsins, segir að það verði að einfalda regluverkið um samkeppnismál innan ESB.
Í ræðu í Brussel í morgun sagði Ribera að það sé þörf á að taka tillit til nýsköpunar og framtíðarmarkaða ef Evrópulöndin ætla að vera samkeppnishæf.
„Evrópsku reglurnar um samruna og yfirtökur eru lykilverkfæri til að halda uppi sanngjörnum markaði. Í dag þegar við skoðum samruna tökum við tillit til nýsköpunar, sveigjanleika og sjálfbærni en við verðum að ganga lengra,“ sagði Ribera en Financial Times greinir frá.
„Við þurfum að ganga lengra því ákvarðanir okkar í dag hafa ekki bara áhrif á markaðinn eins og hann er núna heldur einnig eins og hann verður í framtíðinni. Við þurfum að taka fullt tillit til nýsköpunar, framtíðarsamkeppni og huga að þörf fyrir sveigjanleika í ýmsum geirum eins og orku, varnamálum og geimvísindum.“
Þá sagði hún einnig þörf á að hraða fjárfestingu í grænum verkefnum.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá er Evrópusambandið í töluverðum vandræðum.
Christine Lagarde, forseti Evrópska seðlabankans, sagði nýverið að ríki evrusvæðisins muni að öllu óbreyttu ekki geta staðið undir „rausnarlegum velferðarsamfélögum, mikilvægum fjárfestingum og tæklað loftlagsvandann“ ef þau snúa ekki við þeim stöðuga samdrætti sem hefur verið að hrjá svæðið.
„Við þurfum að aðlagast fljótt að breyttu umhverfi og endurheimta tapaða samkeppnishæfni og nýsköpun,“ sagði Lagarde í lok nóvember.
Joachim Nagel, forseti þýska Seðlabankans og stjórnarmeðlimur Evrópska Seðlabankans, tók í sama streng í ræðu í Tókýó degi á undan Lagarde.
Nagel sagði heiminn vera á barmi þess að sundrast efnahagslega.
„Þessi þróun er áhyggjuefni og við ættum öll að vinna að því að endurreisa frjáls viðskipti,“ sagði Nagel.