Hlut­hafar í danska bankanum Spar Nord hafa til 19. febrúar til að svara val­frjálsu yfir­töku­til­boði danska bankans Nykredit í allt hluta­fé félagsins.

Sam­kvæmt til­boðs­yfir­liti sem birtist í dönsku Kaup­höllinni í dag er Nykredit að bjóða 210 danskar krónur á hlut, eða um 4108 ís­lenskar krónur.

Heildar­kaup­verðið er 24,7 milljarðar danskra króna eða tæpælega 483 milljarðar ís­lenskra króna sem er um 49% hærra en markaðsvirði Spar Nord var áður en greint var frá yfir­tökunni í desember.

Stjórn Spar Nord hefur lagt til við hlut­hafa að samþykkja til­boðið en Nykredit er fjórði stærsti banki Dan­merkur og Spar Nord sá sjötti stærsti.

Sam­kvæmt Børsen yrði sam­einaði bankinn þriðji stærsti banki Dan­merkur en eftir sam­runann verður til stofnað eitt sam­eigin­legt félag sem mun halda utan um rekstur beggja bankanna.

„Það er mikil sam­legð með Spar Nord og Nykredit. Við hörfum sam­eigin­leg gildi og kjarna­starf­semi sem mun auka stöðu okkar á markaðinum,“ sagði Merete Eld­rup stjórnarformaður Nykredit þegar tilboðið var lagt fram.

Eiga um 29% í bankanum nú þegar

Nykredit átti um 19,6% hlut í Spar Nord þegar til­boðið var lagt fram í desember en bankinn hefur bætt við sig hlutum síðustu daga og á nú um 28,73% hlut.

Stærsti hlut­hafi bankans Spar Nord Founda­tion, sem á um 20,3% hlut, hefur nú þegar samþykkt til­boð Nykredit.