Sam­kvæmt við­skipta­blaði The Guar­dian mun yfir­vofandi við­skipta­stríð Bandaríkjanna gagn­vart helstu við­skiptalöndum veikja evruna enn frekar.

Evran fór í 1,04 Bandaríkja­dali á föstu­daginn og hafði hún þá ekki verið veikari gagn­vart dal í næstum tvö ár.

Gjald­miðillinn tók högg á föstu­daginn eftir að greint var að við­skipti á evru­svæðinu væru að dragast saman. Sam­dráttur á evru­svæðinu væri að aukast hratt þar sem bæði Þýska­land og Frakk­land væru að glíma við tölu­verðan sam­drátt.

Ef Donald Trump Bandaríkja­for­seti lætur verða af lof­orðum sínum um háa tolla á Evrópu­sam­bands­löndin gæti það þýtt að evran muni veikjast enn meira á næstu árum.

Sam­kvæmt greiningar­deild ABN Amro mun við­skipta­stríðið leiða til þess að vaxtalækkunar­ferli Evrópska seðla­bankans muni hraðast og á meðan það mun hægjast á vaxtalækkunar­ferlinu í Bandaríkjunum.

„Þetta mun valda því að ein evra verður að einum dal strax á næsta ári,“ segir í greiningu bankans.

Á síðustu þremur mánuðum hefur íslenska krónan styrkt sig um 5,1% gagnvart evru. Evra hefur farið úr tæplega 153 krónum í 145 krónur á tímabilinu.