„Yfirvöld geta alveg eyðilagt rafmyntir á morgun ef vilji stendur til þess,“ segir Jón Daníelsson hagfræðiprófessor og forstöðumaður rannsóknarstofnunar kerfisáhættu í Bretlandi. Það að ekki sé hægt að gera þær beinlínis upptækar yrði lítil huggun ef notkun þeirra yrði svo torvelduð af yfirvöldum að áhugi almennings á þeim gufaði upp.
„Þær hverfa aldrei með öllu en ef yfirvöld gera það of flókið og hættulegt að nota þær þá mun enginn kaupa þær lengur. Stærsti vandi rafmynta er sú þversögn að á meðan hugmyndafræðin kom þeim í heiminn og heldur þeim gangandi eru það braskararnir sem hafa skilað þeim þeirri velgengni sem þær hafa notið síðustu ár.“
„Ef það hættir að vera hægt að flytja peningana sína í og úr eignaflokknum með einföldum hætti þá missa þessir braskarar áhugann og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum hvernig fer með verðið.“
Nánar er rætt við Jón í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út fimmtudaginn 2. mars.