Stefán Ólafsson, efnahagsráðgjafi Eflingar, segir í aðsendri grein á Vísi að til umræðu hafi verið hjá ríkissáttasemjara um helgina að leggja fram breytta miðlunartillögu „sem risi undir því að vera einhvers konar millivegur“ milli krafna Samtaka atvinnulífsins og Eflingar.
Stefán segir að svo virðist sem forystumenn SA hafi verið andvígir því að Ástráður Haraldsson, settur sáttasemjari í deilunni, myndi leggja fram breytta miðlunartillögu.
„Gjáin sem brúa þurfti þá var vel innan þess ramma sem miðlunartillögur geta tekið á með farsælum hætti.“
Líkt og þekkt er lagði Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari fram miðlunartillögu þann 26. janúar síðastliðinn til þess að gera félagsmönnum Eflingar kleift að fá að kjósa um sömu launahækkanir og samið var um við 18 félög Starfsgreinasambandsins.
Málið fór fyrir dómsstóla eftir að Efling neitaði að afhenda kjörskránna. Í byrjun síðustu viku hafnaði Landsréttur kröfu ríkissáttasemjara um afhendingu kjörskrárinnar.
Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari stjórnar Eflingar, stefndi ASÍ, SA og íslenska ríkinu fyrir félagsdómi á föstudaginn til þess að fá að kjósa um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Hún fer fram á að atkvæðagreiðslan fari fram ekki síðar en á fimmtudaginn.