Meta, móðurfélag Facebook, hefur tilkynnt um að það hyggist fækka starfsmönnum um 10 þúsund á næstu mánuðum. Mark Zuckerberg, forstjóri Meta, greinir frá þessu í tilkynningu á vef félagsins. Hlutabréf Meta hafa hækkað um meira en 5% frá opnun markaða í dag.
Þetta er önnur risavaxin hópuppsögn hjá tæknirisanum á aðeins örfáum mánuðum. Meta tilkynnti í nóvember síðastliðnum um að fyrirtækið hefði ákveðið að fækka 11 þúsund störfum.
Zuckerberg hefur lýst árinu 2023 sem „ári skilvirkni“ hjá netrisanum sem reynir nú að bæta rekstrarniðurstöðu sína, ekki síst í ljósi krefjandi efnahagsástands.
„Þetta verður erfitt og það er ekki hægt að skafa utan af því,“ skrifaði Zuckerberg. „Ég vonast til ráðast í þessar skipulagsbreytingar sem fyrst í ár svo að við getum komist í gegnum þetta óvissutímabil og einblínt á mikilvægu verkefnin fram undan.“
Samstæðan hefur hætt við ýmis verkefni sem voru ekki í forgangi en Zuckerberg sagði að óbeinn kostnaður vegna þeirra hafi verið meira en hann átti von á. Hann bætti við að í kjölfar þess að yfirstandandi endurskipulagning á rekstrinum lýkur þá muni félagið aflétta ráðningarbanni innan samstæðunnar.