Ýmsar áskoranir blasa við í viðskiptalífinu og hafa mörg fyrirtæki meðal annars gagnrýnt mikla regluvæðingu sem óljóst er hvaða tilgangi eigi að þjóna. María Björk Einarsdóttir, forstjóri Símans, segir það auðvitað jákvætt í grunninn að hafa skýran ramma þannig að allir viti á hvaða leikvelli verið sé að spila.
„En það er alveg rétt að manni finnst það vera þróunin, og hefur auðvitað líka verið mikið í umræðunni, að það sé verið að ganga of langt í regluvæðingu og skriffinnsku. Oft er kannski verið að setja reglur til þess að ná einhverjum markmiðum sem væri hægt að gera á allt öðrum forsendum,“ segir María.
„Gullhúðun er síðan alveg sérstakt fyrirbæri og eiginlega algjörlega óþolandi. Við erum þegar fámenn þjóð í strjálbýlu landi sem er úr alfara siglingaleiðum. Þessu einu og sér fylgir hlutfallslega mikill kostnaður við að viðhalda öllum innviðum, eiga í viðskiptum og annað, og við eigum ekki að sætta okkur við að stjórnvöld setji auknar kröfur til að draga enn frekar úr samkeppnishæfni Íslands.“
Virkt samtal þurfi að eiga sér stað milli fyrirtækja og stjórnvalda en hægt sé að gera margt betur á hinum ýmsu sviðum samfélagsins með auknu samstarfi.
„Því miður hefur manni stundum fundist það vera tilhneiging hérna á Íslandi, sérstaklega hjá hinu opinbera, að bíða svolítið eftir því að hlutirnir séu komnir í óefni og ætla þá að fara að reyna að bregðast við. En ég held að það sé hægt að ná mjög miklum árangri og maður bindur miklar vonir við að ný ríkisstjórn eigi í virku samtali við atvinnulífið og fyrirtækin í landinu.“
Nauðsynlegt að haga seglum eftir vindi
Þá þurfi stjórnvöld að skapa umhverfi þar sem Ísland getur verið í fremstu röð og leggja ekki óþarfa hindranir heldur frekar að vinna með fyrirtækjunum. Mikil tækifæri en einnig ógnir felist í gervigreindarvæðingu. „Þessi samtöl ættu nú þegar að eiga sér stað milli stjórnvalda og atvinnulífsins, hvernig við ætlum að gera þetta og taka þátt, og hvaða reglur eiga að gilda, það er stórt viðfangsefni,“ segir María en sömuleiðis séu að eiga sér breytingar á vinnumarkaði með nýjum kynslóðum.
Hvað ytra umhverfið varðar hafi miklar breytingar átt sér stað á síðustu árum, en blikur hafi jafnvel verið á lofti fyrir heimsfaraldurinn. María segist telja að tímabil sé nú hafið þar sem það verða miklar breytingar og stórir atburðir, ekki síst vegna aukinnar spennu alþjóðlega bæði í stjórnmálum og efnahagslífinu.
„Þetta er ekki auðvelt en við þurfum bara að vera viðbúin því og haga okkar seglum eftir vindi hverju sinni. En það er líka það sem gerir þetta skemmtilegt og ég held að við öll á Íslandi séum kannski vanari þessu heldur en víða annars staðar, við erum vön ýktum sveiflum og atburðir sem eru kannski ekki stórir á alþjóðlega mælikvarða geta haft mikil áhrif hérna. Við erum með þessa aðlögunarhæfni, ég held að það sé engin mýta, og við búum yfir seiglu, hún er í DNA-inu okkar, og ég held að við öll sem erum að stýra fyrirtækjum á Íslandi njótum þeirra áskorana sem það felur í sér.“
Fréttin er hluti af ítarlegu viðtali í tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur geta nálgast efni úr tímaritinu hér.