Árni Oddur Þórðarson, fyrrverandi forstjóri Marel, var launahæsti forstjórinn í Kauphöllinni í fyrra en áætluð mánaðarlaun hans námu tæplega 17,6 milljónum króna. Skammt á eftir kemur síðan nafni hans, Árni Sigurðsson, núverandi forstjóri Marel, með tæplega 12,7 milljónir í áætlaðar mánaðartekjur.
Árni Sigurðsson, sem þá var aðstoðarforstjóri, tók við forstjórastarfinu af Árna Oddi í árslok 2023 eftir að sá síðarnefndi hætti óvænt í nóvember það ár eftir áratug í starfinu. Hér fyrir neðan má finna áætluð mánaðarlaun allra forstjóra í Kauphöllinni.
Hægt er að kaupa Tekjublaðið í forsölu hér. Að auki verður blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins en það kemur í sölu upp úr hádegi.
Á milli nafnanna í Marel og í öðru sæti yfir tekjuhæstu Kauphallarforstjórana er þó Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, forstjóri Skeljar. Áætluð mánaðarlaun hans námu tæpum 13,8 milljónum króna í fyrra.
Í fjórða sæti er Hjörtur Valdemar Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, með tæpa 10 milljónir, í fimmta sæti er Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, með 9,3 milljónir, og í sjötta sæti er Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Heima (áður Regins) með tæpa 9 milljónir.
Róbert Wessman, forstjóri Alvotech, og Riad Sherif, forstjóri Oculis, eru ekki á listanum þar sem þeir eru búsettir erlendis.
Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.