Tæplega 50 launahæstu starfsmenn fjármálafyrirtækja voru með yfir 3 milljónir króna á mánuði í fyrra og efstu 10 allir um eða yfir 4 milljónum.

Viðskiptablaðið greindi í gær frá launum bankastjóranna á listanum. Efst í flokki starfsmanna fjármálafyrirtækja voru hins vegar Ólöf Jónsóttir, framkvæmdastjóri einstaklingssviðs Íslandsbanka, með 7,58 milljónir í reiknuð mánaðarlaun út frá greiddu útsvari og Jóhann Guðlaugur Jóhannsson, meðaeigandi Aztiq, með 6,21 milljón króna.

Auk Ólafar og Jóhanns voru þrír aðrir einstaklingar meðal tíu efstu sem starfa ekki sem bankastjórar.

Hákon Hrafn Gröndal, framkvæmdastjóri fyrirtækja- og fjárfestingarbankasviðs Arion, var með 4,58 milljónir króna í mánaðarlaun, Ólafur Hrafn Höskuldsson, fjármálastjóri Arion, var með 4,41 milljón og Páll Harðarson, fyrrverandi stjórnandi hjá Nasdaq, var með 4,33 milljónir.

Í 28. sæti listans er Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri með tæpar 3,5 milljónir króna í mánaðarlaun.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki verður blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2024 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.