Efnistök Frjálsrar verslunar hafa verið fjölbreytt í gegnum árin. Hér er rifjuð upp veitingarýni, sem Sigmar B. Hauksson ritaði haustið 1996. Í greininni fjallar hann um bestu veitingahúsin á þessum tíma, skemmtilegustu nýju veitingastaðina og þann athyglisverðasta. Af þeim níu veitingastöðum sem nefndir eru í greininni eru fimm enn starfandi í dag. Gefum Sigmari orðið:

Athyglisverðasta veitingahúsið

Athyglisverðasta veitingahúsið er La Primavera sem flutt hefur úr Húsi verslunarinnar í Austurstræti. Þetta er langbesta ítalska veitingahúsið á íslandi í dag og verður spennandi að fylgjast með því á næstu mánuðum.

Danska smurbrauðið á Jómfrúnni nýtur enn mikilla vinsælda en Jakob Jakobsson opnaði staðinn í tíunda áratug síðustu aldar. Jakob Einar, sonur Jakobs, hefur rekið staðinn frá árinu 2015.
Danska smurbrauðið á Jómfrúnni nýtur enn mikilla vinsælda en Jakob Jakobsson opnaði staðinn í tíunda áratug síðustu aldar. Jakob Einar, sonur Jakobs, hefur rekið staðinn frá árinu 2015.
© BIG (VB MYND/BIG)

Skemmtilegustu nýju staðirnir eru Jómfrúin og Grænn kostur. Jómfrúin í Lækjargötu er smurbrauðsstofa a la Ida Davidsen. Þar er mikið og gott úrval af dönsku smurbrauði. Efast ég stórlega um að eins gott smurbrauðsveitingahús sé til utan Danmerkur.

Grænn kostur hefur á boðstólum ódýra en frábæra grænmetisrétti. Þessi staður hefur svo sannarlega slegið í gegn.

Úlfar Eysteinsson heitinn opnaði Þrjá frakka árið 1989 en sonur hans, Stefán, tók við keflinu árið 2016. Rúnar Marvinsson opnaði og rak veitingastaðinn Við Tjörnina um árabil.
Úlfar Eysteinsson heitinn opnaði Þrjá frakka árið 1989 en sonur hans, Stefán, tók við keflinu árið 2016. Rúnar Marvinsson opnaði og rak veitingastaðinn Við Tjörnina um árabil.

Úlfar Eysteinsson á Þremur Frökkum og Rúnar Marvinsson á Við Tjörnina standa fyrir sínu. Þetta eru að verða klassískir staðir sem sjaldan eða aldrei bregðast. Þetta eru þau veitingahús í Reykjavík sem hvað skemmtilegast er að fara með erlenda gesti á.

Grein Sigmars birtist í Frjálsri verslun í nóvember 1996.
Grein Sigmars birtist í Frjálsri verslun í nóvember 1996.

Bjórinn alltof dýr

Matur ættaður frá Asíu er að verða vinsælasti skyndibitinn, í það minnsta hér í Reykjavík. Vinsælastur er kínamaturinn en tælenski maturinn hefur einnig náð nokkrum vinsældum.

Þessi matur er fyrst og fremst ódýr og fólki finnst hann góður. Það er náttúrlega aðalmálið. Asískum veitingahúsum mun væntanlega fjölga nokkuð á næstu árum og er það hið besta mál."

„Ennþá er okurverð á pítsum hér á landi, sömuleiðis á bjór og léttvínum. Álagning veitingamanna á bjórinn er allt að því glæpsamleg. Ef þeir hafa ekki vit á því að lækka verðið verulega þá verður ríkisvaldið að grípa inn í þótt hálf sé það ógeðfellt. Miklir hagsmunir eru í veði.

Erlendir ferðamenn kvarta stöðugt yfir okurverði á bjór hér á Íslandi. Það er nefnilega þannig að víða í Evrópu er litið á bjórinn sem matvæli en ekki áfengi. Það getur ekki gengið lengur að hér sé hæsta bjórverð í Evrópu.

Hitt er annað mál að nauðsynlegt er að lækka verð á áfengi til veitingahúsanna og helst ætti einnig að lækka verð á bjór og léttvíni til almennings. Þeirri upphæð mætti svo að skaðlausu bæta ofan á verð á tóbaki og brenndum vínum. En það er nú önnur saga."

Sigmar B Hauksson.
Sigmar B Hauksson.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Lífskúnstner og náttúruunnandi

Sigmar B. Hauksson var landsþekktur fjölmiðlamaður. Hann starfaði hjá Ríkisútvarpinu til margra ára, bæði á fréttastofu en einnig við þáttagerð. Hann var lífskúnstner, matgæðingur mikill og hafði gaman að því að ferðaðist. Eftir hann liggja því fjöldi greina um mat og ferðalög. Sigmar var mikill skotveiðimaður og gegndi formennsku í Skotveiðifélagi Íslands (Skotvís) um árabil. Sem formaður félagsins lagði hann mikla áherslu umgengni veiðimanna og virðingu fyrir náttúrunni en náttúran var eitt hans helsta hugðarefni. Eftir stutt veikindi lést Sigmar árið 2012, þá 62 ára gamall.

Umfjöllunin birtist í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa eintak hér en áskrifendur lesið greinin í heild hér.