Úranus ehf., sem flytur inn og selur nýjar og notaðar bifreiðar frá Evrópu og Bandaríkjunum, velti mest allra bílasala á síðasta ári, eða fjórum milljörðum króna.
Velta félagsins jókst um rúmlega fimmtung milli ára og hefur aukist um meira en helming frá árinu 2021.
Bílasala Suðurlands var næst tekjuhæsta bílasalan á síðasta ári, líkt og síðustu ár, með 2,2 milljarða króna í tekjur.
Félagið er sölu- og þjónustuaðili Toyota á Selfossi og er Haukur Baldvinsson eigandi alls hlutafjár félagsins, ásamt því að vera framkvæmdastjóri.
Bílasalan hagnaðist um 147 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 61 milljónar hagnað árið áður.
Á eftir Bílasölu Suðurlands koma Toppbílar, með tæplega 1,5 milljarða króna veltu. Félagið jók veltu sína um helming á milli áranna 2023 og 2022.
Toppbílar kaupa og selja notaða bíla og er í eigu TK bíla ehf., systurfélags Toyota umboðsins á Íslandi, sem er í jafnri eigu þeirra Úlfars Steindórssonar og Kristjáns Þorbergssonar. Toppbílar högnuðust um rúmar fimmtíu milljónir króna á síðasta ári og hefur skilað svipuðum hagnaði á undanförnum árum.
Nánar er fjallað um bílasölur í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.