Aldamótaárið voru um sextíu félög skráð á Verðbréfaþing Íslands, forvera Kauphallarinnar. Hafi það ekki verið nóg gátu fjárfestar litið til Opna tilboðsmarkaðarins í leit á fjárfestingakostum. Á tilboðsmarkaðnum voru um fimmtíu félög. Til samanburðar má nefna að í dag eru ríflega tuttugu félög skráð á aðallista Kauphallarinnar og sex félög á First North-markaðinn.
Á þessum árum starfaði verðbréfafyrirtækið Fjárvangur. En eins og einhverjir muna þá sameinuðust Fjárvangur og Samvinnusjóðurinn undir nafninu Frjálsi fjárfestingabankinn á árinu 2000 og var svo keyptur af Kaupþing stuttu síðar. Fram til sameiningarinnar gaf Fjárvangur út árlega svokallaða Handbók fjárfesta á hlutabréfamarkaði. Í henni var að finna greiningar á öllum fyrirtækjum sem skráð voru á Verðbréfaþingið og viðskipti voru með á Opna tilboðsmarkaðnum.
Fróðlegt er að flétta gegnum síðustu handbókina sem gefin var út en hún kom út í maí á aldamótaárinu og óhætt er að segja að þeir sem hafa fylgst með verðbréfamörkuðum síðustu áratugi verði fyrir einhverskonar endurminningaleiftri. Og ekki er hægt að segja annað en að fjárfestum hafi staðið til boða fjölbreyttir valkostir þegar kom að fjárfestingum í hlutabréfum skráðra fyrirtækja og á Opna tilboðsmarkaðnum.
Bréf í Fóðurblöndunni og KR
Dreift eignasafn á þessum árum hefði þannig innihaldið hlutabréf í Fóðurblöndunni, Hans Petersen, Íslenska járnblendifélaginu, Tæknivali, Fiskmarkaðinum í Þorlákshöfn, Gúmmívinnslunni, Knattspyrnufélagi Reykjavíkur og Tollvörugeymslunni Zimsen svo einhver dæmi séu tekin. Það sem er sérstaklega einkennandi fyrir landslagið á hlutabréfamarkaðnum á þessum tíma er fjöldi skráðra sjávarútvegsfyrirtækja.
Þannig voru um tuttugu fyrirtæki sem stunduðu veiðar, vinnslu og sölu á sjávarafurðum skráð á markað á þessum tíma. Meðal þeirra voru fyrirtæki sem eru enn starfandi í dag. Má þar nefna Samherja, Guðmund Runólfsson, Hraðfrystihúsið Gunnvör, Loðnuvinnsluna, Vinnslustöðina og Þorbjörn. Síldarvinnslan var á þessum tíma skráð á markað líkt og nú og það sama gildir forvera Brims: Granda.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út nýlega. Hægt er að gerast áskrifandi hér.