Flugiðnaðurinn tók rækilega við sér á síðasta ári í sömu andrá og ferðaþjónustan, í kjölfar afléttinga á takmörkunum vegna Covid-19 heimsfaraldursins.
Icelandair var með mestu veltuna af öllum flugfélögum á síðasta ári. Velta félagsins nam 74,3 milljörðum króna og jókst um 35% milli ára. Hins vegar tapaði félagið 13,3 milljörðum á síðasta ári. Árið 2022 markar enn meiri viðsnúning og hefur félagið skilað hagnaði tvo ársfjórðunga í röð og samtals 1,7 milljarða hagnaði það sem af er ári.
Flugfélagið Atlanta var með næstmestu veltuna í flugþjónustu, en félagið velti 28 milljörðum á síðasta ári og jókst veltan um 14% milli ára.
Fjölbreytni hefur aukist nokkuð á flugmarkaði að undanförnu. Jómfrúarflug Play fór í loftið í júní í fyrra. Síðan þá hefur félagið vaxið hratt og eru áfangastaðir þess orðnir 26 talsins, þar af 21 í Evrópu og fjórir í Bandaríkjunum. Velta félagsins nam 2,1 milljarði í fyrra og tapaði félagið 2,9 milljörðum króna eftir skatta.
Þá var flugfélagið Niceair á Akureyri stofnað á árinu 2022, en það fór í jómfrúarflug sitt frá Akureyrarflugvelli 2. júní. Niceair flýgur til sex áfangastaða í Evrópu.
Úr spítalarúminu í Ferrari sportbíl
Gríðarlega mikil aukning varð í veltu þeirra félaga sem sérhæfa sig í útsýnisflugi milli áranna 2020 og 2021, en ferðaþjónustan var í algjöru frosti bróðurpartinn af árinu 2020. Eitt þessara félaga er Norðurflug. Birgir Ómar Haraldsson, framkvæmdastjóri félagsins, segir það hafa verið mikla áskorun fyrir félagið að fara úr Covid og beint í eldgosaæðið. Allt starfsfólk félagsins, hvort sem um flugmenn eða afgreiðslufólk er að ræða, þarfnast mikillar þjálfunar að sögn Birgis.
„Það er alveg einstakt að fara úr Covid-inu og beint í eldgos. Við erum auðvitað þakklát fyrir gosið, en þegar þú starfar í þessum geira er ekki auðvelt að koma sér af stað eftir faraldur. Við fórum úr því að vera á spítalarúminu og beint af stað á 200 km hraða í Ferrari sportbíl. En okkur tókst þetta og við vorum heppin að geta haldið mikið af sama fólkinu í starfi eftir faraldurinn.“
Hann segir mikla samkeppni á markaðnum sem Norðurflug starfar á.
„Hún hefur aukist verulega undanfarin ár og við störfum í allt öðru umhverfi en á árunum fyrir Covid. Það getur í raun hver sem er komið hingað með þyrlur og farið að starfa. Þó er ljóst að það er ekki einfalt. Þú þarft að viðhalda mjög háu þjónustustigi ef þú ætlar að starfa í þessum geira. Farþegarnir eru að kaupa dýra afurð sem kostar alveg hátt í 100 til 200 þúsund krónurnar.“
Birgir segir að ekki sé til sá rekstur sem sé flóknari en flugrekstur. Þá telur hann að veltan muni ekki endilega aukast á næstu misserum, vegna ástandsins í Evrópu.
„Í öllum greiningum sem við koma flugmarkaði er enginn að tala um ástandið sem ríkir á helstu markaðssvæðum okkar. Það er snarhækkandi orkuverð í Evrópu og verðbólga og hækkandi vextir geysa um álfuna. Í ofanálag ákvað einhver einræðisherra í Rússlandi að hefja stríð í Úkraínu, í bakgarði Evrópu. Öll þessi spálíkön sem hafa verið gerð eru að framreikna næstu tímabil. En ég spyr mig hvernig þú ætlar að fara að því að framreikna þegar við erum í þessum aðstæðum. Ef það eru einhvern tímann fordæmalausir tímar þá eru þeir núna.“
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði