Í tímariti Frjálsrar verslunar, sem var að koma út, er ljósi varpað á tæplega sextíu Íslendinga, sem hafa verið á uppleið í atvinnulífinu undanfarin misseri. Lögð er áhersla á yngra fólk og til marks um það er meðalaldurinn rétt rúmlega 37 ár. Á listanum eru 29 konur og 27 karlar. Í hópnum er fólk sem starfar í hinum ýmsu atvinnugreinum þjóðfélagsins eins og ferðaþjónustu, viðskiptalífi, verslun, byggingageiranum, sem og fólk sem hefur gert það gott í nýsköpun.
Hér fyrir neðan má sjá brot af þeim einstaklingum sem eru á listanum.
Baldvin Þorsteinsson (35)
- Baldvin Þorsteinsson er framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Samherja og stjórnarformaður Eimskips. Hann var forstjóri Jarðborana áður en hann tók við núverandi starfi sínu hjá Samherja. Baldvin hefur í gegnum tíðina setið í stjórn hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Hann er með B.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Baldvin lék einnig lengi vel handbolta við góðan orðstír, meðal annars hjá Val og FH. Hann á þar að auki að leiki að baki með A landsliði karla og mikinn fjölda leikja með yngri landsliðum.
Gréta María Grétarsdóttir (39)
- Gréta María Grétarsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar ehf. í haust samhliða sameiningu Festi og N1. Krónan ehf. rekur verslanir Krónunnar, Nóatúns, Kr og Kjarvals. Gréta hafði verið fjármálastjóri Festi frá árinu 2016 en var forstöðumaður hagdeildar Arion banka á árunum 2010-2016. Þá hefur Gréta einnig starfað hjá Seðlabanka Íslands, Sparisjóðabankanum og Kögun/ VKS. Gréta er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði og B.Sc. gráðu í vélaverkfræði frá Háskóla Íslands.
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Kristrún Tinna Gunnarsdóttir (35)
- Kristrún Tinna Gunnarsdóttir er hagfræðingur og yfirverkefnastjóri hjá ráðgjafafyrirtækinu Oliver Wyman í Svíþjóð. Hefur hún, með stuttu hléi, unnið hjá sænska fyrirtækinu í sex ár. Einnig hefur hún starfað sem verkefnastjóri hjá Beringer Finance í Svíþjóð, sem og hjá Swedbank, Landsbanka Íslands og Arion verðbréfavörslu. Kristrún Tinna sat í fyrra í starfshópi á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Starfshópurinn vann Hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Kristrún Tinna er með B.Sc. í hagfræði frá Háskóla Íslands. Hún er með M.Sc. í hagfræði frá Stockholm School of Economics og er master í alþjóðastjórnun (MiM) frá sama skóla og ESADE-háskólanum í Barcelona. Þá er hún löggiltur verbréfamiðlari frá Háskólanum í Reykjavík.
Nánar má lesa um „Fólk á uppleið" í nýju tímariti Frjálsrar verslunar. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi hér .