Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri kísilmálmverksmiðju Elkem á Grundartanga segir fjárfestingar í aukinni raforkuframleiðslu ekki óumdeildar og að mikilvægt sé að stjórnvöld séu með ófluga stefnumótun og viti hvað þau vilji gera til langs tíma og að taka þurfi ákvörðun um hvort eigi að virkja meira á Íslandi.
„Landslagið í þeirri umræðu hefur breyst töluvert undanfarin tvö ár. Það var enginn að ræða virkjanir en núna virðist ríkja meiri skilningur á því að til þess að draga úr losun í heiminum þá þurfum við að virkja.“
Þá segir hún einnig að mikilvægt sé að forgangsraða rétt og fjárfesta í frekari orkuendurvinnslu og öflugra flutningskerfi áður en horft sé til frekari virkjana. „Það skiptir mestu máli að við séum að fullnýta þá raforku sem við erum þegar búin að virkja. Mér finnst svo mikil synd að við séum ekki að endurvinna hana betur en einnig þarf að bæta úr raforkutapinu í flutningskerfinu.“
Viðtalið við Álfheiði er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní.