Brynjólfur H. Björnsson, fyrrverandi eigandi verslunarinnar Brynju, var meðal þeirra sem birtist á listanum yfir tekjuhæstu Íslendinga í nýjasta Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Brynjólfur seldi Brynju á síðasta ári en hann var aðeins 11 ára þegar faðir hans keypti verslunina.

Í nýjasta Tekjublaði var Brynjólfur næst efstur í sínum flokki, á eftir Haraldi Inga Þorleifssyni, fyrrverandi yfirmanni hjá Twitter. Þar kemur fram að Brynjólfur hafi verið með 11,5 milljónir króna í laun á mánuði.

Verslunin Brynja var stofnuð árið 1919 af Guðmundi Jónssyni, trésmiði frá Akranesi. Hún var fyrst staðsett við Laugaveg 24 en var svo færð á Laugaveg 29 árið 1930. Faðir Brynjólfs keypti síðan verslunina árið 1953 en verslunin hafði ætíð verið tengd fjölskyldunni þar sem Guðmundur var ömmubróðir Brynjólfs.

Brynjólfur byrjaði svo að vinna í versluninni á Laugavegi á sjötta áratug seinustu aldar. Hann byrjaði að sinna verkefnum á unglingsárum sínum en var svo kominn í fullt starf með föður sínum upp úr 1960 og tók síðan við rekstri árið 1993.

Verslunin var á endanum seld og lokaði Brynjólfur versluninni í október í fyrra. Brynja starfar þó áfram sem netverslun og eru það dóttir Brynjólfs og tengdasonur hans sem sjá um það.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið í forsölu hér. Að auki verður blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2022 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2021, sem greiddur var árið 2022. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.