Skylduaðild starfsfólks að stéttarfélögum opinberra starfsmanna ásamt óformlegri skylduaðild á almennum vinnumarkaði í formi forgangsréttarákvæða kjarasamninga færa stéttarfélögum mikil völd. En völdum fylgir ábyrgð og senn reynir á hana.
Forsenda farsællar niðurstöðu komandi kjaraviðræðna er að tillit verði tekið til aðstæðna í efnahagslífinu og horfst í augu við augljósa annmarka á núverandi fyrirkomulagi kjaraviðræðna og kröfugerða. Í því samhengi er átt við mikilvægi þess að stéttarfélög forðist bólgin loforð um að sækja miklar launahækkanir, sem sagan sýnir að er glýjan ein þegar kemur að aukningu kaupmáttar launa.
Sama krónutala lægstu launa nú og í desember 1980
Í desember 1980 var lægsti launataxti verkafólks 355 þúsund krónur á mánuði. Þau hækkuðu síðan 12 sinnum um samtals 200% á næstu 30 mánuðum og voru komin í rúma eina milljón (gamlar krónur) þann 1. júní 1983. Í millitíðinni voru tvö núll klippt af krónunni þannig að það telur ekki að þau hafi náð einni milljón. Þau voru bara 10 þúsund nýkrónur eins og þær kölluðust þá.
Í ársbyrjun 2022 var lægsti launataxti verkafólks 357 þúsund krónur á mánuði. Lægstu laun hafa þannig hundraðfaldast á síðustu fjórum áratugum. Það vekur upp vangaveltur um hvort önnur myntbreyting gæti verið á næsta leiti.
Frá árinu 1990 hafa lágmarkslaun hækkað um ríflega 800%, eða um 7,5% á ári að jafnaði.
Frá árinu 1990 hafa lágmarkslaun hækkað um ríflega 800%, eða um 7,5% á ári að jafnaði. Með sama áframhaldi ná lágmarkslaun einni milljón króna árið 2036 – eftir 14 ár. Það verður þó ekki hægt að kaupa þrisvar sinnum meiri vöru og þjónustu fyrir milljón þá og 350 þúsund nú því mikill meirihluti hækkunarinnar verður verðbólgufroða.
Launahækkanir umfram svigrúm í 30 ár jafn miklar og hækkun erlendra gjaldmiðla
Svigrúm til launahækkana, án þess að verðbólgumarkmiði Seðlabankans sé ógnað, er talið vera um 4% að jafnaði á ári. Svo vill til að launahækkanir á Íslandi umfram áætlað svigrúm og meðalhækkun erlendra gjaldmiðla hafa verið álíka miklar undanfarna áratugi.
Á milli áranna 1990 og 2021 hækkaði launavísitala Hagstofunnar um 108% umfram áætlað 4% árlegt svigrúm, eða um 2,4% að jafnaði á ári. Á sama tímabili hækkaði Bandaríkjadollari um 118%, og evran (og forveri hennar DEM) um 113%. Sú ályktun er því nærtæk að launahækkanir umfram svigrúm hafi stuðlað að samsvarandi hækkun á verði erlendra gjaldmiðla, þ.e. gengislækkun krónunnar.
Langdregnar og flóknar samningalotur
Stéttarfélögin eru 130. Þau gera 330 kjarasamninga fyrir 180 þúsund félagsmenn. Síðasta samningalota hófst í apríl 2019 og lauk kjarasamningum við meginþorra stéttarfélaganna innan ASÍ í maíbyrjun 2019. Í upphafi lotunnar voru undirritaðir kjarasamningar við 46 stéttarfélög sem náðu til 90 þúsund launamanna, þ.e. helmings allra launamanna. Það tók síðan rúmlega tvö ár að ljúka lotunni.
Himinn og haf er á milli stefnu stéttarfélaganna varðandi launabreytingar, bæði form og efni.
Viðræður í aðdraganda undirritunar fyrstu kjarasamninga hverrar samingalotu geta tekið hálft ár eða meira og því er hið verðuga markmið, um endurnýjun kjarasamninga áður en gildandi renna út, afar fjarlægt. Ef allt gengur að óskum eru kjarasamningar samþykktir milli SA og stéttarfélaga samflots aðildarfélaga ASÍ sem ná til helmings félagsmanna stéttarfélaga í landinu. Slíkri kjarasátt fylgir jafnan yfirlýsing ríkisstjórnar um framgang ýmissa áhersluumála samningsaðila. Þegar svo er komið eiga hátt í 100 stéttarfélög eftir að ljúka 280 samningum fyrir hinn helming launamannanna 180 þúsund. Yfirlýsingar ríkisstjórna eru léttvægar í þeim viðræðum.
Ósamstaða um form og efni
Himinn og haf er á milli stefnu stéttarfélaganna varðandi launabreytingar, bæði form og efni. Stéttarfélög verkafólks krefjast jafnan krónutöluhækkana, auk þess að sú stefna gangi yfir allan vinnumarkaðinn þannig að launabil þjappist saman. Þessi stefna þeirra nær þó ekki til kjarasamninga sem þau sjálf gera fyrir félagsmenn sína sem starfa í stóriðju- og orkufyrirtækjum. Það dregur óhjákvæmilega úr trúverðugleika verkalýðsfélaganna. Önnur stéttarfélög kjósa fremur hlutfallslegar hækkanir launa og eru andvíg samþjöppun launabila. Þessi ósamstaða stéttarfélaganna um form launabreytinga gerir úrvinnslu kjarasamninga að afar flóknu viðfangsefni og er ein ástæða þess hversu mikið þeir dragast á langinn.
Ósamstaða um efnið, þ.e. hversu miklar launabreytingar skuli semja um á hverjum tíma, er þó stærra vandamál en formið. Oftast eru fyrstu kjarasamningar hverrar lotu gerðir á milli Samtaka atvinnulífsins og landssambanda verkafólks og verslunarmanna, en í þeim hafa tvö félög, VR og Efling, um helming félagsmanna. Félög iðnaðarmanna eru yfirleitt virkir þátttakendur í samflotunum.
Kröfur um hækkun lágmarkslauna fela jafnan í sér miklar prósentuhækkanir
Í áróðursstríðinu, sem jafnan fer af stað, þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga, setja forystumenn verkalýðsfélaga fram eina aðalkröfu sem hljómar einkar vel. Krafist er tiltekinnar hækkunar lágmarkslauna, upp í heil eða hálf hundruð þúsunda króna, með þeim rökum að lægri laun teljist vart mannsæmandi og dugi ekki fyrir framfærslu. Erfitt er að vera ósammála því og mælist yfirgnæfandi stuðningur við slíkar kröfu í skoðanakönnunum.
Umræðu um efnahagslegt svigrúm til launahækkana er kerfisbundið hafnað.
Hængurinn er sá að þessar sléttu krónutölur fela undantekningarlaust í sér kröfu um mikla prósentuhækkun launa sem takmarkaðir fjármunir eru til fyrir. Stéttarfélögin ganga ekki til viðræðna til að ræða um skiptingu verðmætaaukningar. Umræðu um efnahagslegt svigrúm til launahækkana er kerfisbundið hafnað.
En krafan um hækkun lægsta launataxtans er einungis toppurinn af ísjakanum því aðrar kröfugerðir félaganna skipta jafnan tugum og fela í sér hugmyndir um miklar kostnaðarhækkanir. Vinna er þó hvorki lögð í mat á kostnaði við kröfurnar né forgangsröðun þeirra. Viðsemjandanum er það látið eftir ásamt greiningu á áhrifum framgangs krafnanna. Niðurstöður slíks mats fulltrúa atvinnurekenda er jafnan vísað á bug sem áróðri sem ekki þurfi að ræða frekar. Engan þarf því að undra að erfitt sé að endurnýja kjarasamninga áður þeir gildandi renna út.
Hækkanir lægstu launa fara upp alla launastiga
Þegar fyrstu kjarasamningarnir loks nást er niðurstaðan yfirleitt sú að hlutfallsleg hækkun launataxta er töluvert umfram skilgreint svigrúm til launabreytinga, en launahækkanir þeirra sem fá greidd hærri laun eru hóflegar. Í kjarasamningum í framhaldinu taka samningsbundnir launataxtar hærra launaðra stétta mið af hlutfallslegri hækkun lægstu launataxtanna. Litlar fréttir berast af kostnaðarmati þeirra samninga. Á vinnumarkaðnum eru síðan teknar þúsundir ákvarðana um uppfærslu óformlegra launakerfa fyrirtækja og persónulegra ráðningarsamninga þar sem gjarnan er litið til hækkunar umsaminna launataxta. Mældar launabreytingar, sem birtast í launavísitölu Hagstofunnar, eru því ávallt töluvert meiri en fram kemur í kostnaðarmati samningsaðila.
Stéttarfélög sem standa utan ASÍ, bæði innan og utan einkageirans, bíða jafnan eftir niðurstöðu kjarasamninga landssambanda ASÍ og Samtaka atvinnulífsins. Þegar þeir liggja fyrir freista þau þess að bæta kjör félagsmanna sinna umfram það sem felst í hinum stefnumarkandi samningum. Talsmenn þeirra telja sig óbundna af samningum ASÍ og SA, enda hafi stéttarfélög sjálfstæðan samningsrétt. Niðurstaðan er oft í samræmi við þennan málflutning eins og þróun launavísitalna opinberra starfsmanna undanfarin ár sýnir, en þær hækkuðu töluvert umfram launavísitölu almenna vinnumarkaðarins. Hér á landi er þetta fyrirbæri kallað höfrungahlaup við kjarasamningsgerð og þekkist ekki í öðrum löndum.
Loforð ríkisstjórna til samningsaðila um margháttaðar breytingar á löggjöf hljóta að vera umhugsunarefni.
Öll launakerfi landsins taka mið af hækkunum kauptaxta kjarasamninga, ef ekki strax þá með tímanum, því ekki er unnt að þjappa saman launabilum endalaust. Rétt er að minna á að samið hefur verið um krónutöluhækkanir launataxta hvert einasta ár á þessari öld, að árinu 2007 undanskildu. Hraði hækkana lægstu launa upp alla launastiga landsins fer eftir árferði. Á erfiðum tímum er unnt að þjappa launabilum saman um sinn með krónutöluhækkunum, en það sætta stéttarfélög hærra launaðra sig ekki lengi við. Þegar atvinnuástand batnar sækja launabil í fyrra horf fyrir tilstuðlan kjarasamninga meðaltekjuhópanna og launaskriði annarra. Þetta er sagan endalausa á íslenskum vinnumarkaði.
Sífelld fjölgun krafna til stjórnvalda
Í tengslum við gerð hins þríhliða Þjóðarsáttarsamnings árið 1990, þar sem sameinast var um hjöðnun verðbólgu niður á svipað stig og í viðskiptaríkjunum, gaf ríkisstjórnin út yfirlýsingu með sex fyrirheitum sem einkum snerist um verðlag. Árið 1992 fólu kjarasamningar í sér mjög litlar launahækkanir og árin 1993 og 1994 fólu þeir ekki í sér neinar launahækkanir, en á móti komu stjórnvöld með fjölda aðgerða til að styrkja kaupmátt launa. Úr fjölda loforða ríkisstjórna dró um síðustu aldamót en í kringum bankahrunið jókst fjöldi þeirra á ný. Á síðasta samningstímabili gaf ríkisstjórnin fleiri fyrirheit en nokkru sinni fyrr. Loforð ríkisstjórna til samningsaðila um margháttaðar breytingar á löggjöf hljóta að vera umhugsunarefni í ljósi þrískiptingar valdsins, sem og mikil fjölgun þessara loforða án þess að þau stuðli sjáanlega að hófstilltum kjarasamningum.
Besta niðurstaða kjarasamninga
Völdum fylgir ábyrgð og miklum völdum stéttarfélaga fylgir mikil ábyrgð. Undir þeirri ábyrgð verða þau að rísa í næstu kjaralotu. Annars fer illa. Ábyrgðin felst í því að víkja frá hefðbundnu hegðunarmynstri og stuðla að árangursríkri hjöðnun verðbólgu.
Samkomulag um svipaða nálgun og samstaða náðist um við gerð Þjóðarsáttarinnar 1990 kemur öllum til góða.
Besta niðurstaða næstu kjaralotu væri framlenging kjarasamninganna 330 sem í fælust hófstilltar launahækkanir og þríhliða samstarf heildarsamtaka og stjórnvalda um að koma verðbólgu í markmið Seðlabankans sem allra fyrst. Launabreytingar á samningstímabilinu yrðu einkum í formi launaskriðstryggingar umsaminna launataxta, þannig að þeir dragist ekki aftur úr almennri launaþróun. Opinberar aðgerðir í tengslum við kjarasamningana verði fáar en markvissar og beinist fyrst og fremst að stöðu þeirra sem lakast standa og ábyrgri efnahagsstjórn til að ná verðbólgumarkmiðinu. Í þessari leið fælist lágmörkun á stýrivaxtahækkunum Seðlabankans og lægstu mögulegu vaxtagreiðslur skuldugra íbúðakaupenda.
Kaupmáttur launa er mikill
Kaupmáttur launa jókst umtalsvert á yfirstandandi samningstímabili. Á þremur árum, milli aprílmánaða 2019 og 2022, jókst kaupmáttur launa skv. Hagstofunni um 8,6% og kaupmáttur lægsta launataxta um 9,7%. Það gerðist þrátt fyrir ýmis áföll sem urðu til þess að svigrúm til launahækkana minnkaði, t.d. á mælikvarða landsframleiðslu á íbúa, sem áætlað er að dragist saman 4% milli áranna 2019 og 2022.
Samkomulag um svipaða nálgun og samstaða náðist um við gerð Þjóðarsáttarinnar 1990 kemur öllum til góða og mest þeim lakast settu og hafa skuldsett sig á undanförnum árum vegna íbúðakaupa. Ef stéttarfélögin hyggjast knýja fram miklar krónutöluhækkanir, og elta liðna verðbólgu að auki, mun verðbólga aukast enn og verða illviðráðanleg. Það mun óhjákvæmilega leiða til mikilla vaxtahækkana með miklu tjóni fyrir heimilin og atvinnulífið.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri SA og Hannes G. Sigurðsson er ráðgjafi stjórnar SA.