Gólfefnabúðir landsins eru þó nokkrar talsins. Flestar þeirra hafa skilað hagnaði undanfarin ár og tekjur haldist stöðugar, þó að samdrátt hafi mátt merkja víða árið 2022 samhliða verðbólgu og háu vaxtastigi.
Eins og á fyrri árum var Parki stærsta gólfefnabúð landsins árið 2023 en rekstrarfélagið, Bitter ehf., velti ríflega 3,4 milljörðum króna í fyrra og nam hagnaður 204 milljónum. Þrátt fyrir að hagnaður hafi dregist saman jukust tekjur um 5% milli 2022 og 2023.
„Rekstrarumhverfið okkar er áfram sterkt, sérstaklega í sölu til fyrirtækja og fagaðila. Einstaklings markaðurinn heldur einnig góðri virkni, þótt það hafi dregið úr stærri fjárfestingum, semtengist að hluta til óvissu um vaxtastig og verðbólgu. Breytingar á endurgreiðslu virðisaukaskatts á viðhaldsmarkaðnum hefur einnig haft áhrif,“ segir Gústaf Bjarki Ólafsson, annar eigenda og framkvæmdastjóra Parka.
„Við horfum engu að síður jákvætt fram á veginn og fylgjumst grannt með þróun á fasteignamarkaði – sérstaklega í byggingu og sölu nýrra íbúða þar sem uppsöfnuð húsnæðisþörf er veruleg.“
Birgisson er næststærsta gólfefnabúð landsins með tæplega 1,7 milljarða króna veltu árið 2023 og 72 milljónir í hagnað. Því næst kemur Álfaborg ehf. með ríflega 1,5 milljarða í veltu, sem var 20% aukning frá fyrra ári, og 71 milljón í hagnað.
Alls eru 11 gólfefnabúðir teknar fyrir í bókinni 500 stærstu. Níu verslanir hafa skilað stöðugum hagnaði síðustu ár og samanlagðar tekjur námu 11 milljörðum króna í fyrra, sem er aukning frá árunum 2022 og 2021.
Nánar er fjallað um málið í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.