Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson er tekjuhæstur í flokki íþróttafólks og þjálfara í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Þetta er fjórða árið í röð sem Hafþór trónir á toppi listans.

Tekjur Hafþórs í fyrra námu að jafnaði 5,6 milljónum króna á mánuði miðað við greitt útsvar. Til samanburðar námu tekjur Hafþórs 5,0 milljónum króna á mánuði árið 2022.

Hafþór, sem er hvað þekktastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Game of Thrones, rekur sína eigin líkamsræktarstöð og selur einnig skyr undir vörumerkinu Thor‘s Skyr.

Eftir nokkra ára fjarveru hóf Hafþór nýlega aftur að keppa í aflraunum. Hann tók þátt í keppninni „Strongest Man on Earth“, sem haldin var í Colorado í Bandaríkjunum um helgina, og endaði þar í öðru sæti.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið í forsölu hér. Að auki verður blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins en það kemur í sölu upp úr hádegi.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.