Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson er tekjuhæstur í flokki íþróttafólks og þjálfara í Tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag. Þetta er fimmta árið í röð sem Hafþór trónir á toppi listans.

Tekjur Hafþórs í fyrra námu að jafnaði 4,9 milljónum króna á mánuði miðað við greitt útsvar. Til samanburðar námu tekjur Hafþórs 5,6 milljónum króna á mánuði árið 2023.

Í öðru sæti listans er Geir Þorsteinsson með 2,3 milljónir á mánuði. Hann var framkvæmdastjóri Leiknis þar til í nóvember í fyrra en þá var hann ráðinn rekstrarstjóri knattspyrnudeildar KR. Geir var framkvæmdastjóri KSÍ og formaður sambandsins frá 2007 til 2017. Klara Ósk Bjartmarz, fyrrverandi framkvæmdastjóri KSÍ, situr í þriðja sæti listans með 1,8 milljónir í tekjur.

Núverandi formaður KSÍ, Þorvaldur Örlygsson, er í fjórða sæti listans með ríflega 1,5 milljónir í tekjur á mánuði. Arnar Gunnlaugsson, landsliðsþjálfari karla í knattspyrnu er með tæplega 1,5 milljónir og Þorsteinn H. Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu er með tæplega 1,4.

Töluverður munur er á tekjum þjálfara í Bestu deild karla. Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks er með tæplega 1,4 milljónir. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, er með 1 milljón og sömu sögu er að segja af Óskari Hrafni Þorvaldssyni, þjálfara KR. Srdjan Tufegdic, sem tók við sem þjálfari Vals í ágúst í fyrra, er með 505 þúsund á mánuði á síðasta ári.

Af öðrum má nefna að Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari karla í handbolta, er með 1,2 milljónir í tekjur á mánuði miðað við greitt útsvar og Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Vals í körfubolta, er með sömu laun.

Þá var Guðrún Brá Björgvinsdóttir, kylfingur úr Keili, með 666 þúsund á mánuði á síðasta ári og Sóley Margrét Jónsdóttir kraftlyftingakona var með 600 þúsund og Annie Mist Þórisdóttir, íþróttakona í CrossFit, var með tæplega 600 þúsund.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2024 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.