Lucinity, sem var stofnað af forstjóranum Guðmundi Kristjánssyni í nóvember 2018, framleiðir hugbúnað sem hjálpar bönkum að verjast peningaþvætti. Lausnir Lucinity gera ferlið skilvirkara með svokallaðri hjálpargreind sem Guðmundur lýsir sem blöndu af því besta úr gervigreind og mannlegri greind. Tólin gera því fyrirtækjum kleift að finna meira af peningaþvætti ásamt því að geta sent hraðar frá sér tilkynningar til eftirlitsaðila.
„Það er mjög spennandi að geta byggt upp svona fyrirtæki á Íslandi. Eftir á hyggja tel ég að það hafi verið styrkur að starfa hérlendis vegna Covid. Á meðan aðrir voru heima, þá gátum við verið á skrifstofunni,“ segir Guðmundur. Hann var því lítt hrifinn af slökunum á reglum við landamærin á sínum tíma.
„Aðstæðurnar hérna heima veittu okkur samkeppnisforskot með því að ná fólki saman og skapaði tækifæri til að afla gjaldeyristekna. Ég held að margir hafi vanmetið hvað það var gott að vera hérna á Íslandi. Það skemmdi mikið fyrir íslenskum sprotafyrirtækjum þegar við þurftum að yfirgefa skrifstofurnar og vinna heima.“
Starfsmenn Lucinity eru 35 í dag, nærri þrefalt fleiri en í upphafi kórónuveirufaraldursins. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar í Borgartúni en er einnig með starfstöðvar í New York, London og Brussel. Guðmundur áætlar að starfsfólk fyrirtækisins verði á bilinu 45-50 í lok ársins og að tekjuvöxtur verði um 300% í ár. Viðskiptavinir Lucinity samanstanda m.a. af tveimur íslenskum viðskiptabönkum, þar á meðal Kviku, og einum af fimm stærstu bönkum heims.
Lucinity býður í dag upp á fjórar vörur. Í fyrsta lagi er fyrirtækið með færsluvöktun (e. transaction monitoring) sem fer yfir allar færslur frá viðskiptavinum og skilar skýrslum til regluvarða þar sem gervigreindin útskýrir af hverju viðkomandi færslur voru flaggaðar. Í öðru lagi er það Actor Intelligence sem gefur bönkum skýra mynda af viðskiptavinum og lætur vita af óvenjulegum viðskiptum, ásamt því að meta regluverksáhættu þeirra. Í þriðja lagi er Lucinity með vinnuflæðistól sem hjálpar regluvörðum að vinna saman í málum og skrá niður gögn. Fjórða varan sem fyrirtækið er að koma með út á markað er lausn sem hjálpar regluvörðum með utanumhald á skýrslum sem sendar eru til opinberra eftirlitsaðila.
Lucinity hefur frá stofnun fengið samtals 8,9 milljónir dala í fjármögnun, sem jafngildir 1,1 milljarði króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Þar af lauk fyrirtækið 6,1 milljónar dala fjármögnun frá erlendum fjárfestum í mars á síðasta ári. Lucinity fékk einnig tveggja milljóna dala fjármögnun frá hópi fjárfesta, leiddum af íslenska fjárfestingarsjóðnum Crowberry Capital, á fyrri hluta ársins 2019. Þá hefur fyrirtækið fengið 70 milljónir króna í öndvegisstyrk frá Tækniþróunarsjóði.
Nánar er fjallað um Lucinity og fleiri sprota á uppleið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi með því að senda póst á [email protected] .