Hlutfall kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum hér á landi á árabilinu 2010-2022 er að meðaltali 21,9%. Á tímabilinu hefur hlutfall kvenna sem taka við stöðu framkvæmdastjóra af öðrum konum að meðaltali verið 45%, en hlutfall kvenna sem taka við slíkum stöðum af körlum að meðaltali verið 16,8%, samkvæmt greiningu sem Creditinfo gerði fyrir Frjálsa verslun.
Sveiflur í þróun hlutfalls þeirra kvenna sem taka við stöðunum af körlum og hlutfalli kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum hefur haldist í hendur á tímabilinu. Hins vegar hefur hlutfall þeirra kvenna sem taka við framkvæmdastjórastöðum af öðrum konum aukist jafnt og þétt og var til að mynda 56,7% í fyrra og hafði þá hækkað samfellt frá árinu 2018.
Katrín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri Hagvangs, segir ljóst að þróunin síðustu ár hafi verið í þá átt að konum sé að fjölga í framkvæmdastjórastöðum. Konur séu í mikilli sókn og þau hjá Hagvangi sjái það í sínum ráðningum. „Það er krafa nútímans að kynjahlutföll í framkvæmdastjórnum og stjórnum fyrirtækja séu sem jöfnust. Það er mikill stígandi í þessu,“ segir Katrín.
Hún segist sjá það í sínu starfi að færri konur sæki um þessi störf en karlar, sem gæti orsakast af því að þær séu vandlátari eða hafi önnur áhugasvið. „Það vill oft gleymast í umræðunni að það hafa ekki allir áhuga á því að gegna stjórnunarstöðum. Konur vilja gjarnan ráða sig í störf sem þær hafa vissu fyrir að þær muni standa sig vel í og hafa áhuga á. Aftur á móti virðist mér karlmenn síður þurfa þessa vissu.“
Þá nefnir hún einnig að lítið sé fengið með því að fólk taki að sér verkefni sem það hafi ekki áhuga á að sinna. Umræðan og tíðarandinn hafi breyst frá því sem áður var og í dag þykir sjálfsagt að konur séu jafn hæfar til að gegna stjórnendastöðum og karlar. „Góð reynsla af konum í þessum störfum og aukinn sýnileiki þegar konur eru ráðnar í þessi störf hefur áhrif.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.