Heildarvelta þeirra 15 kvikmyndaframleiðslufyrirtækja sem hér eru tekin saman nam 11 milljörðum króna í fyrra og jókst um 67% eða rúma 4,4 milljarða milli ára. Samanlagður hagnaður nam 441 milljón og þrefaldaðist.
Félagið Truenorth Nordic – sem vermir 249. sæti á 300 stærstu-listanum í ár – bar eins og sést höfuð og herðar yfir hin hvað veltu varðar en hagnaðarkrúnuna tekur framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, RVK Studios, með 214 milljóna hagnað, sem að vísu er lítillegur samdráttur frá í fyrra.
Veltan jókst hjá 13 af 15 fyrirtækjum og hagnaðurinn hjá 9 af 15 milli ára, en miklar sveiflur geta verið milli einstakra fyrirtækja í greininni.
Elli Cassata, framkvæmdastjóri Pegasus Productions, segir félagið hafa fengið nóg að gera árið 2020 vegna stuðningsúrræðna í tengslum við faraldurinn, en minna hafi verið um slíkt í fyrra þótt um nokkur stór slík verkefni hafi verið að ræða.
„Í ár stefnir svo í þónokkurn taprekstur. Þess vegna er best að halda rekstrinum eins litlum í sniðum og hægt er,“ segir hann og bendir á miklar sveiflur í rekstrarumhverfi og verkefnastöðu. „Svo býst maður alltaf við því að næsta ár geti orðið frábært.“
Sveiflurnar geta þó eins og áður sagði verið mjög ólíkar jafnvel milli fyrirtækja innan greinarinnar, og Elli segir heilt yfir hafa verið nóg að gera í kvikmyndaframleiðslu hér á landi undanfarið.
„Flestir hafa haft mjög mikið að gera og í heild er kvikmyndabransinn á Íslandi í mikilli sókn,“ segir Elli, sem er sannfærður um að yfirstandandi ár verði enn betra en það síðasta fyrir íslenska kvikmyndagerð. Heildarvelta hennar hafi verið um 21 milljarður í fyrra en búast megi við að hún verði nær 30 en 20 í ár.
Ein af þeim stuðningsaðgerðum sem ráðist var í fyrir greinina í heimsfaraldrinum var að bæta um hálfum milljarði króna á ári við framlög til kvikmyndasjóðs, sem fyrir hafði verið að fá um milljarð árlega. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er viðbótarframlagið hins vegar farið og fjárveitingin því aftur komin í rúman milljarð, en töluverðrar óánægju hefur gætt meðal kvikmyndagerðarfólks vegna þessa.
Á sama tíma stefnir hins vegar í stóraukin heildarútgjöld ríkisins til stuðnings við greinina. Í sumar samþykkti Alþingi frumvarp Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, um aukið endurgreiðsluhlutfall vegna framleiðslukostnaðar við kvikmyndagerð fyrir stór verkefni. Nái kostnaðurinn 350 milljónum króna, töku- og eftirvinnsludagar 30 og starfsmenn eru 50 myndast réttur á endurgreiðslu 35% heildarkostnaðar í stað 25% eins og almennt gildir. Áætlaður framleiðslukostnaður fjórðu þáttaraðar glæpaþáttanna vinsælu True Detective – hvers framleiðsla er þegar komin á fullt skrið – er um 9 milljarðar króna, og því viðbúið að ríkið muni þurfa að leggja út ríflega 3 milljarða króna fyrir það verkefni eitt og sér. Til samanburðar varð sprenging í endurgreiðslum ríkisins í faraldrinum þegar árleg heildarupphæð þeirra fór úr ríflega milljarði í vel yfir tvo.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði