Aldamótaárið var viðburðaríkt á mörkuðum hér landi sem og annars staðar. Hin annálaða stemning sem alla jafna grípur Íslendinga við minnsta meðbyr var ríkjandi við upphaf ársins og að einhverju leyti má líta svo á þarna hafi verið sleginn sá tónn sem síðar glumdi í höfðum allra landsmanna síðustu árin áður en fjármálakreppan skall á haustið 2008. Tónn sem segir að Íslendingar geti kennt umheiminum sitthvað um viðskipti og hvernig á að ráðast í arðbærar fjárfestingar.
Ágætt dæmi um þetta voru kaup íslenskra fjárfesta í knattspyrnufélaginu Stoke sem þá lék í þriðju deild á Englandi. Íslendingarnir keyptu kjölfestuhlut í liðinu í nóvember 1999 en 12. janúar gafst almennum fjárfestum á Íslandi tækifæri til þess að kaupa bréf í félaginu. Í frétt Viðskiptablaðsins um útboðið sagði:
„Viðskiptahugmyndin er í sjálfu sér einföld. Knattspyrnan í lægri deildum Englands er vanþróuð og þjálfun ábótavant. Tækifærin eru hins vegar mikil og liðin í efstu deildum sum hver reynst arðsamar fjárfestingar. Til að hrinda þessu í framkvæmd er fenginn Guðjón Þórðarson, sigursælasti þjálfarinn á Íslandi. Líklega hefur engin ein viðskiptahugmynd verið lögð jafn mikið á herðar eins manns og þessi.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út á fimmtudaginn. Hægt er að gerast áskrifandi hér.