Velta flestra af stærstu lögmannsstofum landsins jókst á milli áranna 2023 og 2022. Logos er sem fyrr stærsta lögmannsstofa landsins með rúmlega 2,8 milljarða króna veltu á síðasta ári, og jókst veltan um þriðjung milli ára. Nam hagnaður stofunnar 778 milljónum í fyrra og nærri tvöfaldaðist milli ára.
Logos rekur sögu sína allt aftur til ársins 1907 þegar Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti Íslands, opnaði málflutningsskrifstofu í Kirkjustræti í Reykjavík.
Benedikt Egill Árnason, framkvæmdastjóri stofunnar, segir mikla grósku í viðskiptalífinu hafa leitt til fleiri verkefna á milli ára.
„Svo var töluverð aukning á umsvifum erlendra viðskiptavina okkar en erlendu verkefnin voru ansi viðamikil og fjölbreytt þetta árið. Þegar gróska er í viðskiptalífinu hentar sérstaða okkar á markaðinum vel, en hún er að leggja áherslu á sérhæfingu á öllum réttarsviðum og að verkin séu unnin af þeim einstaklingum sem hafa mestu reynslu og þekkingu á viðkomandi réttarsviði. Síðast en ekki síst höfum við afburða starfsfólk sem lagði mjög hart að sér til þess að þjónusta viðskiptamenn okkar á viðburðaríku ári.“
Á eftir Logos kemur LEX með veltu upp á tæplega 1,6 milljarða króna. LEX, sem á rætur sínar að rekja til ársins 1959, hagnaðist um 300 milljónir króna í fyrra.
BBA Fjeldco er þriðja tekjumesta stofan, með velta upp á rúmlega 1,5 milljarða króna. Hagnaðist stofan um 400 milljónir í fyrra, sem gerir hagnaðarhlutfall upp á 26%.
Nánar er fjallað um lögfræðistofur í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.