Árangur í loftslagsmálum er óaðskiljanlegur þáttur í sjálfbærri þróun og þar gegnir endurnýjanleg orka lykilhlutverki. Þjóðir heims leggja nú allt kapp á að hverfa frá notkun á ósjálfbæru jarðefnaeldsneyti og skipta yfir í græna, endurnýjanlega orkugjafa.
Allar alþjóðastofnanir og greiningaraðilar á sviði orkumála eru sammála um að margfalda þarf framboð á endurnýjanlegri orku á kostnað jarðefnaeldsneytis ef stefna á að kolefnishlutleysi og hægja á hlýnun jarðar. Þessi vegferð tekur tíma, jafnvel hjá okkur Íslendingum sem erum þó komin mun lengra en flest önnur lönd í orkuskiptum.
Staðan á alþjóðlegum orkumörkuðum, krefjandi skuldbindingar sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum og markmið um orkuskipti hafa nú leitt til meiri eftirspurnar eftir grænni orku á Íslandi en áður eru dæmi um. Græna orkan okkar verður því sífellt verðmætari og eftirspurn eftir henni mun aukast enn meira. Framboðið er takmarkað og það tekur tíma að byggja nýjar virkjanir, þar sem þarf að vanda vel til verka.
Skýr forgangsröðun til næstu ára
Við þessar aðstæður þarf Landsvirkjun að forgangsraða áherslum í orkusölu til næstu ára, enda er eftirspurn eftir raforku meiri en framboðið. Megináhersla verður lögð á að anna eftirspurn eftir raforku til aukinnar almennrar notkunar í samfélaginu og til innlendra orkuskipta, til að styðja við aukna stafræna vegferð og nýsköpun og til að styðja við framþróun núverandi stórnotenda. Í fyrsta skipti í sögu Landsvirkjunar þarf að segja nei við fjölmörgum góðum verkefnum. Fyrirtækið mun hvorki leggja áherslu á að fá nýja stórnotendur í málmiðnaði eða hrávöruvinnslu í viðskipti né heldur leggja áherslu á útflutning orku. Orkan fyrir öll góð verkefni er einfaldlega ekki til.
Það styttist til 2030
Íslensk stjórnvöld hafa sett háleit markmið til að mæta loftslagsáskorun heimsins: Stefnt er að því að Ísland verði laust við olíu og bensín árið 2040 og jafnframt orðið kolefnishlutlaust. Til að uppfylla Parísarsamninginn frá árinu 2015 hafa íslensk stjórnvöld sett markmið um samdrátt samfélagslosunar, sem er á beina ábyrgð ríkisins, og gefið út að draga þurfi úr árslosun um 1,3 milljónir tonna til ársins 2030 frá árinu 2021.
Þær aðgerðir sem hafa bein áhrif á samfélagslosun eru verkefni eins og orkuskipti í vegasamgöngum, sjávarútvegi og innanlandsflugi, rafeldsneytisframleiðsla til notkunar innanlands og niðurdæling koldíoxíðs frá jarðvarma. Aðrar aðgerðir, sem eru mikilvægar og ástæða til að halda áfram, hafa hins vegar engin áhrif á þessar skuldbindingar. Það styttist til ársins 2030 og mikilvægt að við beinum kröftum okkar á rétta staði næstu árin ef Ísland ætlar að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar í loftslagsmálum.
Það er mikilvægt að hafa í huga að orkuskiptin eru ekki fyrir orkugeirann.
Fyrirtækin í landinu verða að leggja sitt af mörkum. Þótt Landsvirkjun sé nú þegar með eitt lægsta kolefnisspor í orkuvinnslu á heimsvísu munum við ekki láta þar við sitja. Fyrirtækið stefnir að kolefnishlutleysi árið 2025 og hyggst á næstu árum draga úr losun frá starfseminni sem nemur 2,5% af heildarskuldbindingum Íslands. Ekki þarf nema 39 aðila, fyrirtæki, atvinnu- eða þjónustugreinar, til ná sambærilegum árangri og þá mun þjóðin ná að uppfylla skuldbindingar sínar að fullu.
Orkuskipti leika lykilhlutverk
Losun vegna jarðefnaeldsneytis sem telst til samfélagslosunar er um 1,6 milljónir tonna ár hvert og því er ljóst að með orkuskiptum er til mikils að vinna. Við Íslendingar getum látið fortíðina vísa okkur veginn og horft til fyrri orkuskipta, þar sem hitaveituvæðing og rafvæðing samfélagsins skilaði miklum árangri. Núna eru þriðju orkuskiptin hafin sem snúa að mestu að samgöngum.
Það er mikilvægt að hafa í huga að orkuskiptin eru ekki fyrir orkugeirann, enda notar hann sáralítið jarðefnaeldsneyti. Vinnsla á endurnýjanlegri orku er aðeins tæki til þess að ná því markmiði sem stjórnvöld hafa sett sér og samfélagið stefnir að. Ákallið er þegar komið fram frá samfélaginu sjálfu og stjórnvöldum, en árangur í þessum efnum mun ekki síst ráðast af framþróun á tæknilegum lausnum, vilja og getu þeirra atvinnugreina sem þurfa á orkuskiptunum að halda.
Framtíðarsýn um sjálfbæran heim
Framundan er stórt og vandasamt verkefni. Við þurfum að vanda til verka og halda áfram að nýta endurnýjanlegar orkuauðlindir þjóðarinnar til hagsbóta fyrir okkur öll, ásamt því að takast á við loftslagsmálin, stærstu umhverfisvá samtímans.
Framtíðarsýn Landsvirkjunar er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku og hlutverk okkar er að hámarka verðmæti þeirra endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi. Með skýra framtíðarsýn og hlutverk að leiðarljósi munum við styðja Ísland til að ná sínum markmiðum og þar með heiminn í átt að aukinni sjálfbærni.
Greinin birtist í bók Frjálsrar verslunar 300 stærstu, en áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.