Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Grundartanga, segir að við framleiðslu á kísilmálmi þurfi að losa súrefnissameindir í kvarsi frá kísilfrumeindum. Kolefni eru notuð til þess en þau binda súrefni og mynda koltvíoxíð. Kolefnisgjafarnir sem notaðir eru við framleiðslu kísilmálms hjá Elkem á Grundartanga í dag eru kol, koks og timburkurl. Í fyrra losaði Elkem um 375.893 tonn af koltvíoxíð frá óendurnýtanlegum kolefnisgjöfum á meðan hlutfall losunar vegna notkunar lífmassa jókst og stóð í 80.651 tonni.

Elkem stefnir að því að skipta öllum kolum sem notuð eru í starfseminni út fyrir endurnýjanleg kolefni á næstu árum. „Í dag eru kolin nauðsynlegur partur af efnaferlinu þegar við erum að losa kísilinn frá. Við erum að vinna að því að búa til viðarpallettur sem munu koma í stað kola.“ Gangi þessi áform eftir er Álfheiður bjartsýn á að á næstu 5 árum muni öll losun frá verksmiðjunni koma frá endurnýjanlegum kolefnisgjöfum. „Losunin verður síðan öll fönguð og framleitt úr henni rafeldsneyti eða dælt niður í jörðina. Við værum þá í rauninni að búa til neikvæða losun frá verksmiðjunni.“

Viðtalið við Álfheiði er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní.