Í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar er ítarlega fjallað um viðskipti Íslands við Sovétríkin á árunum 1953 til 1991. Á tímabili var allt innflutt eldsneyti frá Sovétríkjunum en það var selt undir merkjum Olíufélagsins Esso, Skeljungs – Shell eða Olíuverzlunar Íslands – BP.
Þó um jafnkaupsamning hafi verið að ræða voru viðskiptin aldrei jöfn því olían frá Sovétmönnum fylgdi heimsmarkaðsverði en fast verð var á útflutningsvörum Íslendinga. Þetta olli því að Íslendingar voru að jafnaði í skuld við Sovétmenn.
Þessi viðskipti þjóðanna voru veruleg og skiptu íslenskt efnahagslíf miklu máli. Hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu, ekki síst í olíukreppunum 1974 og 1978, gerðu það að verkum að þegar líða tók á viðskiptasambandið var olían orðin um 90% af innflutningsverðmætinu til Íslands. Í lok árs 1975 var jafnkaupastefnan afnumin, ekki síst vegna hækkandi olíuverðs og hefði ella þýtt að Sovétmenn hefðu þurft að kaupa meira og meira í krónum talið – eða rúblum talið - af Íslendingum.
Þótt olían hafi verið verðmætasta og líklega mikilvægasta afurðin sem Íslendingar fluttu inn frá Sovétríkjunum, voru aðrar vörur meira áberandi meðal almennings. Fyrsti rússneski bíllinn kom til landsins árið 1954 en hann var af gerðinni Moskvitch – eða Moskvubúinn á íslensku. Fyrstu bílarnir voru fluttir inn af Gísla Johnsen. Árið 1955 voru Bifreiðar og landbúnaðarvélar stofnaðar. Fyrstu bílarnir, sem B&L flutti inn frá Sovétríkjunum, komu til landsins í júlí og ágúst 1954 en það voru um 100 eintök af Pobeda. Síðar komu Moskvitch, ZIM, Rússajeppinn, Volgan, Jalta og að lokum Ladan.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní . Hægt er að gerast áskrifandi hér.