Samanlögð velta þeirra 11 rafverktaka sem hér eru teknir saman nam 13,6 milljörðum króna í fyrra og jókst um 26% milli ára, eða 17% þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðbólgu. Árið á undan hafði hún aðeins aukist um 3% að raunvirði, og þar á undan dróst hún lítillega saman.

Hagnaður verktakafyrirtækjanna 11 nam alls 874 milljónum króna og jókst um 22%, en 12% á föstu verðlagi. Veruleg aukning hafði verið árið áður, þegar hann jókst um 63%, en þar áður hafði hann dregist saman um 18%.

Stærstu tvö félögin – Rafholt og Rafmiðlun – stóðu undir hátt í helmingi veltunnar, eða 42%, og 44% hagnaðarins í fyrra, og hafa bæði hlutföllin lítið breyst frá 2019, nema hvað hlutdeild þeirra í heildarhagnaði hafði verið nokkru hærri árið áður. 73% veltunnar runnu í gegnum stærstu 5 félögin – sem eru þau af þessum lista sem náðu inn á 500 stærstu listann í ár – og til þeirra skiluðu 63% heildarhagnaðarins sér.

Nánar er fjallað um rafverktakafyrirtæki í bókinni 500 stærstu sem kom út 6. desember síðastliðinn. Hægt er að kaupa bókina hér.