Umtalsverður vöxtur hefur verið á raflagnamarkaði og horfur eru á að eftirspurn muni halda áfram að aukast á næstu árum.

Samanlögð velta tíu stærstu rafverktaka landsins nam 20,5 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 39% milli áranna 2023 og 2022. Samanlögð velta sömu fyrirtækja hefur þá aukist um 77,5% frá árinu 2021.

Rafholt er stærsta félagið á íslenska raflagnamarkaðnum og hefur starfsemi þess vaxið hratt á undanförnum árum. Velta Rafholts nam fjórum milljörðum króna á síðasta ári og jókst um tæplega milljarð króna á milli ára.

Rafholt var stofnað árið 2002 þegar þrjú fyrirtæki sem höfðu unnið fyrir varnarliðið á Keflavíkurflugvelli sneru bökum saman.

Meðal verkefna Rafholts á undanförnum misserum er stækkun á Flugstöð Leifs Eiríkssonar, stækkun á gagnaveri Verne Global á Ásbrú, umbreyting á Hótel Sögu og blokkarframkvæmdir á Traða- og Smárareitunum í Kópavogi.

Framtakssjóðurinn Aldir I gekk á árinu 2024 frá kaupum á 70% hlut í Rafholti. Stofnendur og lykilstarfsmenn munu halda eftir 30% eignarhlut og starfa með sjóðnum að frekari uppbyggingu félagsins. Aldir I er í eigu breiðs hóps stofnana- og einkafjárfesta en rekstur hans er í höndum sjóðastýringarfélagsins Aldir ehf.

Rafmiðlun og Rafal fylgja fast á hæla Rafholts, en báðir verktakarnir skiluðu 3,5 milljarða króna veltu á síðasta ári. Tekjur Rafmiðlunar jukust um tæpar 800 milljónir króna milli ára og tekjur Rafal jukust um rúman milljarð króna milli ára. Þar á eftir koma Rafeyri og Raflax með um 1,7 milljarða króna veltu á árinu 2023.

Nánar er fjallað um rafverktaka í bók Frjálsrar verslunar, 500 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að festa kaup á bókinni hér.