Upphaf einkavæðingarstefnu á Íslandi má rekja til ársins 1991 þegar Viðeyjarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við völdum í apríl 1991. Þá var í fyrsta skipti sett fram yfirlýst stefna um að selja beri eignarhlut ríkisins í ýmsum fyrirtækjum.

Ríkisstjórnin skipaði framkvæmdanefnd um einkavæðingu og tók hún til starfa 4. febrúar 1992. Nefndin var skipuð fulltrúum fjármálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og utanríkisráðuneytis, en formaður hennar var skipaður af Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra.

Fyrsti formaður Einkavæðingarnefndarinnar var Hreinn Loftsson hrl. sem áður hafði m.a. verið aðstoðarmaður Davíðs og er í dag aðstoðarmaður Guðrúnar Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra.

Í fyrstu nefndinni sátu, ásamt Hreini, Steingrímur Ari Arason, tilnefndur af Friðriki Sophussyni þáverandi fjármálaráðherra, og Björn Friðfinnsson, tilnefndur af Jóni Sigurðssyni þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

Fyrsta sala af frumkvæði nefndarinnar var á Prentsmiðjunni Gutenberg. Prentsmiðjan annaðist almenn prentverk og voru helstu viðskiptavinir hennar Alþingi, Stjórnarráðið og ýmsar ríkisstofnanir.

Á árunum 1992-2007 seldi ríkið eignarhluti í fyrirtækjum fyrir alls 370 milljarða króna að núvirði en mest fékkst fyrir sölu á Landssímanum árið 2005 og á ríkisbönkunum þremur: Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.

Nánar er fjallað um sögu einkavæðingar á Íslandi í nýútkomnu tímariti Frjálsrar verslunar um einkavæðinguna. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.