Það hefur reynst mörgum vel í gegnum aldirnar að horfa út í heim. Um leið og við opnum augun fyrir því sem aðrir eru að gera þá fylgir því oft að aðrir taka eftir okkur.
Crowberry fjárfestir í norrænum tæknisprotafyrirtækjum á fyrstu stigum fjármögnunar. Það að vera virkur fjárfestir á öllum Norðurlöndunum hefur gert sjóðnum kleift að víkka sjóndeildarhringinn og sjá stærra safn fjárfestingartækifæra og um leið stækka tengslanetið og fjölga meðfjárfestum. Það hefur gert Crowberry beittari í vinnubrögðum og skerpt sýn sjóðsins á það sem efst er á baugi í heimi tækni og nýsköpunar.
Þetta hefur lengi verið áhersla hjá okkur í Crowberry að tengjast erlendum fjárfestum og hefur það reynst okkur sérstaklega farsælt að tengjast norræna sprotasamfélaginu. Þessi samvinna og samstarf hófst þegar við störfuðum enn hjá Nýsköpunarsjóði en þar sem sá sjóður var fyrst og fremst með Ísland sem fjárfestingarsvæði var samtalið of einhliða að því leyti að við vorum að sækjast eftir því að draga fjárfesta til landsins, en með því að geta skoðað fjárfestingar annarra sjóða náðist meiri gagnkvæmni í samskiptin sem skilaði sér í auknum áhuga á íslenskum fyrirtækjum.
Crowberry var stofnað árið 2017 og hefur fjárfest í 20 fyrirtækjum úr sjóði I og II. Meirihluti fyrirtækja í eignasafni Crowberry I hefur tengingu við Ísland þó að félögin geti haft starfsemi hvar sem er í heiminum. Crowberry II mun leggja enn frekari áherslu á fjárfestingu utan Íslands enda tækifæri mörg og mikil gróska á öllum Norðurlöndum. Fyrirtæki í eignasafni Crowberry hafa laðað að sér 26 erlenda meðfjárfesta sem hafa fjárfest í félögum í eignasafni Crowberry fyrir um 11 milljarða króna á sama tíma og Crowberry I hefur fjárfest fyrir rúma 3 milljarða í sömu fyrirtækjum. Það sést því glöggt að samstarf og samvinna um fjármögnun sprotafyrirtækja er mikilvæg.
Þegar fyrirtæki hafa náð að laða að sér alþjóðlega fjárfesta með fjölbreyttan bakgrunn verður umræðan í kringum hvert fyrirtæki dýpri og gagnlegri. Breiðari bakgrunnur fjárfesta stækkar því tengslanetið út fyrir hið íslenska, hjálpar fyrirtækjum að ná aðgengi að mörkuðum, frekara fjármagni og styðja loks við útgöngu. Um leið myndast oft traust samband milli þeirra fjárfesta sem standa að fyrirtækjunum og þá gefst oft tækifæri til að segja frá öðrum frábærum félögum sem eru að vaxa frá Íslandi.
Þeir fjárfestar sem koma frá Bandaríkjunum eða Evrópu líta á Norðurlöndin sem einn suðupott og vita að þaðan hafa komið mörg farsæl sprotafyrirtæki. Það er því okkur í hag sem komum frá mjög litlu markaðssvæði að tengja okkur markvisst við stærra svæði og verða hluti af því.
Gott dæmi um þetta norræna samstarf er fjármögnunin á leikjafyrirtækinu Mainframe. Fyrirtækið var stofnað af íslenskum og finnskum frumkvöðlum og fyrsta fjármögnun félagsins var leidd sameiginlega af fjórum sjóðum, Crowberry, Maki, Play Ventures og Sisu Games, sem eru íslenskir og finnskir vísisjóðir. Í næstu fjármögnun náði fyrirtækið að laða að sér A16Z sem er einn fremsti vísisjóður í heimi með aðsetur í Kísildal. Fjárfestingin í Mainframe var fyrsta fjárfesting A16Z á Norðurlöndunum.
Það er mikilvægt fyrir sprotafyrirtæki sem hyggst ná árangri alþjóðlega að byrja sem fyrst á því að tala við erlenda fjárfesta. Ekki festast eingöngu í sínu nærumhverfi heldur fara út fyrir þægindarammann og byrja að máta hugmyndina inn í alþjóðageirann frá upphafi. Þó getur verið góð nálgun að vera með fjárfesta líka frá sínu heimasvæði og það veitir ákveðið öryggi fyrir erlenda sjóði að vita af því að fjárfestar frá sama landi hafi einnig fjárfest. Það er þó ekki alltaf nauðsynlegt og ef frumkvöðlar koma að lokuðum dyrum hjá íslenskum vísisjóðum er alltaf hægt að fara beint út og tala við fjárfesta hvar sem er i heiminum. Það getur reynst vel að taka þátt í erlendum hröðlum. Y-Combinator er dæmi um einn fremsta hraðal í heimi og hefur eitt íslenskt fyrirtæki náð að komast í hann, en það er fyrirtækið Avo sem í kjölfarið fékk til liðs við sig GGV Capital sem leiddi 3 milljóna dollara fjármögnun.
Við hvetjum því frumkvöðla sem eru að fara af stað með tækni sprotafyrirtæki að setja kynningarefnið fram eins og verið sé að eiga samtal við erlenda fjárfesta, hafa gögn á ensku og allar tölur í evrum eða dollurum. Það er hjálplegt að mæta á ráðstefnur erlendis og sjá hvernig fyrirtæki eru að kynna sig þar og finna sína rödd út í hinum stóra heimi.
Það hefur reynst vel að fara þá leið að skipta fjármögnun félags upp í viðráðanlegar einingar og ná að sanna hæfni teymis og árangur vörunnar á markaði í nokkrum skrefum. Fyrirtæki taka gjarnan inn fyrstu fjármögnun sem er oft á bilinu 20-100 milljónir króna og kallast pre-seed fjármögnun. Næst á eftir kemur seed fjármögnun sem er gjarnan á bilinu 100-300 milljónir króna. Fyrstu tvær fjármögnunarumferðir gera ekki ráð fyrir því að varan sé tilbúin og sala komin af stað. Hinsvegar ef fyrirtæki vill ná svokallaðri A-fjármögnun sem oft er á bilinu 400 milljónir-1 milljarður króna þá þarf að vera kominn árangur í sölu eða skýr sýn á getu teymis til að framleiða góða vöru.
Vísisjóðir sérhæfa sig gjarnan í fjárfestingum á ákveðnu fjármögnunarstigi. Crowberry sérhæfir sig í fjárfestingum á fyrstu tveimur stigum fjármögnunar, pre-seed og seed stigi. Síðan þarf fyrirtæki að fara aftur af stað í fjármögnun gjarnan eftir 18-24 mánuði og þá þarf að fá nýjan leiðandi fjárfesti að borðinu. Þetta gerir það að verkum að fyrirtækið þarf með reglulegu millibili að sannfæra nýja aðila um aðkomu að félaginu og gerir alla stefnu og framkvæmd beittari. Fyrirtækin þurfa að huga að því að safna nægu fé til að ná þeim markmiðum og rekstrarárangri sem er nauðsynlegur til að ná næstu fjármögnun.
Crowberry I fjárfesti i 16 fyrirtækjum og eru 15 enn starfandi. Átta af þessum 16 fyrirtækjum hafa náð góðum framhaldsfjárfestingum og þar af hafa þrjú þeirra sótt sér 2-3 milljarða hvert á innan við 3 árum frá stofnun.
Hraðinn er að aukast og það kostar peninga að vaxa. Það er mikil samkeppni og sama hugmyndin getur sprottið upp á svipuðum tíma víðsvegar um heim. Þau fyrirtæki sem ná árangri hafa að geyma mikla framkvæmdagetu og aðgengi að nægu fjármagni.
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn. Það sama á við um tæknisprotafyrirtæki nema hvað þorpið er alþjóðlegt. Til að ná árangri þurfa sprotafyrirtækin að laða til sín hæfasta starfsfólkið sama hvaðan það kemur. Þetta á líka við um fjárfesta, en tæknisprotafyrirtæki eru að leita að fjárfestum sem hafa skilning, þekkingu og gott tengslanet sem eykur líkur á að ná næstu fjármögnun og að ná góðri útgöngu (exit) fyrir alla þá sem tóku þátt í vegferðinni.
Það verður spennandi að fylgjast með íslensku sprotasenunni á næstu árum. Það er ótrúlega margt búið að færast í rétta átt og teymin hér eru á heimsmælikvarða. Á næstu árum munum við svo vonandi sjá þessi fyrirtæki skila raunverulegum hagnaði til baka til þeirra sem stofnuðu fyrirtækin, störfuðu hjá þeim og þeirra sem fjárfestu í þeim.
Höfundur er einn stofnenda og meðeiganda Crowberry Capital
Greinin birtist í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í síðasta mánuði.