Sesselja Sigurborg Ómarsdóttir, lyfjafræðiprófessor og framkvæmdastjóri lyfjavísinda hjá Alvotech, var efst á lista í flokki skólamanna í Tekjublaði Frjálsrar verslunar en áætluð mánaðarlaun hennar voru að jafnaði 12,6 milljónir á mánuði.

Er það þrefalt meira en næsti maður á lista en gera má ráð fyrir að aðrir þættir en föst laun, t.a.m. kaupréttasamningar, spili hlutverk. Til samanburðar var Sesselja með 4,9 milljónir á mánuði í Tekjublaðinu í fyrra.

Næst launahæsti skólamaðurinn var Þorsteinn Loftsson, fv. lyfjafræðiprófessor við HÍ og annar stofnanda Oculis. Að meðaltali var hann með 4,3 milljónir á mánuði.

Á eftir honum kemur ónæmisfræðiprófessorinn Ingileif Jónsdóttir en hún starfar einnig sem deildarstjóri smit- og bólgusjúkdóma hjá Íslenskri erfðagreiningu. Námu laun hennar að meðaltali 3,4 milljónum króna.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2023 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.