Opinberar aðgerðir í tengslum við kjarasamninga hér á landi hefur farið fjölgandi á síðustu árum. Á síðasta samningstímabili gaf ríkisstjórnin fleiri fyrirheit en nokkru sinni fyrr eða um 59 talsins. Þetta kemur fram í grein Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, og Hannesar G. Sigurðssonar, ráðgjafa stjórnar SA, í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar.
Þar kemur fram að á samningstímabilinu 1990-1994 hafi kjarasamningar falið í sér mjög litlar launahækkanir en á móti hafi stjórnvöld komið með fjölda aðgerða til að styrkja kaupmátt launa. Á þessu tímabili var fjöldi loforða ríkisstjórnarinnar vegna kjarasamninga 28 talsins eða helmingi færri en á tímabilinu 2015-2019.
Dregið hafi úr fjölda loforða ríkisstjórna um síðustu aldamót en í kringum bankahrunið jókst fjöldi þeirra á ný.
Halldór Benjamín og Hannes telja bestu niðurstöðu næstu kjaralotu vera framlengingu kjarasamninga með hófstilltum launahækkunum og þríhliða samstarfi heildarsamtaka og stjórnvalda um að koma verðbólgu í markmið Seðlabankans „sem allra fyrst“.
„Opinberar aðgerðir í tengslum við kjarasamningana verði fáar en markvissar og beinist fyrst og fremst að stöðu þeirra sem lakast standa og ábyrgri efnahagsstjórn til að ná verðbólgumarkmiðinu. Í þessari leið fælist lágmörkun á stýrivaxtahækkunum Seðlabankans og lægstu mögulegu vaxtagreiðslur skuldugra íbúðakaupenda.“
Grein Halldórs Benjamíns og Hannesar má lesa hér en hún birtist í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar.