Í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun er ítarleg umfjöllun um eignarhald fyrirtækjanna sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Stærstu eigendur hvers félags eru tíundaðir auk frekari upplýsinga og því til viðbótar má finna ítarlegar úttektir á stærstu einka- og erlendu fjárfestunum, hlutafjáreign bankanna í Kauphöllinni fyrir hönd annarra, og sögu og stöðu sambands lífeyrissjóðanna við Kauphöllina.
Í samantekt um einkafjárfesta er farið yfir þá 10 stærstu eftir samanlögðu markaðsvirði. Stærstu tveir eru Eyrir Invest og Samherji, í þeirri röð.
1. Eyrir Invest
Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson
Stærsti einstaki eignarhlutur einkaaðila í skráðu félagi er fjórðungshlutur Eyris Invest í Marel sem gerir Eyri jafnframt að stærsta einkafjárfesti í Kauphöllinni. Virði hlutarins er nú í kringum 115 milljarðar króna og hefur lækkað úr rúmlega 160 milljörðum um áramótin.
Marel er stærsta félagið í Kauphöllinni og er virði þess um fimmtungur af heildarvirði allra félaga á aðallista Kauphallarinnar.
2. Samherji
Þorsteinn Már Baldvinsson og Kristján Vilhelmsson
Eignarhlutur systurfélaganna Samherja og Samherja Holding í fjórum skráðum félögum í Kauphöllinni nemur um 87 milljörðum króna. Samherji og Samherji Holding eru stærstu hluthafar Síldarvinnslunnar, Eimskips og eru meðal stærstu hluthafa Haga og Sjóvár.
Frá áramótum hefur gengi bréfa í þessum félögum staðið nánast óbreytt nema í Sjóvá sem hefur lækkað um tæplega fimmtung.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í morgun. Hægt er að gerast áskrifandi hér.