Hlutfall kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum hér á landi á árabilinu 2010-2022 er að meðaltali 21,9%. Á tímabilinu hefur hlutfall kvenna sem taka við stöðu framkvæmdastjóra af öðrum konum að meðaltali verið 45%, en hlutfall kvenna sem taka við slíkum stöðum af körlum að meðaltali verið 16,8%, samkvæmt greiningu sem Creditinfo gerði fyrir Frjálsa verslun.

Sveiflur í þróun hlutfalls þeirra kvenna sem taka við stöðunum af körlum og hlutfalli kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum hefur haldist í hendur á tímabilinu. Hins vegar hefur hlutfall þeirra kvenna sem taka við framkvæmdastjórastöðum af öðrum konum aukist jafnt og þétt og var til að mynda 56,7% í fyrra og hafði þá hækkað samfellt frá árinu 2018.

Þegar litið er á þróun hlutfalls kvenna af nýráðnum framkvæmdastjórum eftir atvinnugreinum er hlutfallið til að mynda mjög lágt í flokknum landbúnaður, skógrækt og sjávarútvegur. Þar er það 0% á árinu og var einungis 6,3% í fyrra en hefur að meðaltali verið 15% á árabilinu 2010-2022. Til samanburðar er hlutfallið að meðaltali 26,5% í ferðaþjónustu og afþreyingu, 19,3% í fjármála-, vátrygginga og fasteignastarfsemi og 21% í smá- og heildsölu, 17,6% í framleiðslu og 22,7% í sérfræðivinnu.

Hlutfallið alltof lágt


Agnes Guðmundsdóttir, formaður félagsins Konur í sjávarútvegi, segir þessar tölur vera enn eina sönnun þess að sjávarútvegur sem atvinnugrein sé langt á eftir þegar komi að jafnrétti. Hún fagnar greiningu Creditinfo þó að hún hefði eðli málsins samkvæmt viljað sjá aðrar niðurstöður. „Sjávarútvegurinn þarf að gera miklu betur þegar kemur að jafnrétti og eitt sterkasta vopnið til að breyta núverandi stöðu er að hafa sterk gögn, rýna í tölurnar, fylgjast með þróuninni og grípa inn í þar sem hægt er að styðja við konur í greininni,“ segir Agnes.

Agnes segir félag eins og Konur í sjávarútvegi (KIS) vera gífurlega mikilvægt afl, bæði til að efla konur innan greinarinnar en einnig til að laða fleiri öflugar konur inn í þessa spennandi og framsæknu atvinnugrein. KIS hafi tvívegis látið framkvæma rannsókn á stöðu kvenna í sjávarútvegi, fyrst árið 2017 og svo aftur haustið 2021. „Niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar í upphafi þessa árs og kom þar skýrt í ljós að enn er langt í land þegar kemur að jafnrétti í greininni og breytingar gerist hægt. Þó sjáum við að þrátt fyrir fjölgun beggja í greininni eru framkvæmdastjórastöður einu stöðurnar sem eru að færast frá körlum til kvenna. Það blasir þó við að hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum er alltof lágt og það þarf að breytast. Það þýðir ekki að bíða eftir breytingunum heldur þarf að skapa jarðveg fyrir konur innan greinarinnar og hlúa að vexti þeirra innan hennar.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Frjálsrar verslunar.