Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri kísilmálmverksmiðju Elkem á Grundartanga, segir að í framleiðsluferli kísilmálms losni koltvístringur sem sé óhjákvæmilegur partur þess að losa súrefni úr hráefninu. Eitt af áherslumálum Elkem sé því að auka hlutdeild lífmassa í kolefnisgjöfum. „Notkun lífmassa hefur aukist töluvert og var í fyrra 16% af heildarlosun.“
Að sögn Álfheiðar er Elkem á Grundartanga í aðstöðu til að fanga allan koltvísýring í útblæstrinum frá verksmiðjunni. Síðan megi veita fönguninni á ýmsan hátt; til að mynda sé hægt að dæla koltvísýringnum niður í jörðina eða framleiða úr honum rafeldsneyti. Hins vegar þurfi töluvert mikið af raforku til að framleiða rafeldsneyti úr fönguninni. „Við þurfum um 330 MW til þess að geta framleitt rafeldsneyti úr öllum koltvísýringnum sem verksmiðjan okkar losar. Koltvísýringur er flott auðlind ef hann er fangaður og nýttur rétt.“
Hún segir mikil tækifæri á Grundartanga, en með því að skipta jarðefnakolefnum út fyrir lífmassa geti verksmiðjan orðið kolefnishlutlaus. „Þrátt fyrir það yrði áfram losun af CO2 frá lífmassanum en hægt er að fanga hann og farga eða nýta. Með því yrði verksmiðjan okkar kolefnisneikvæð.“
Viðtalið við Álfheiði er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní.