Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, var tekjuhæsti tónlistarmaður landsins samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar. Jökull var með 2,4 milljónir króna á mánuði miðað við greitt útsvar. Í fyrra voru tekjur Jökuls á Íslandi 120 þúsund krónur.

Á eftir Jökli á listanum er Stefán Sigurður Stefánsson saxófónleikari með ríflega 1,6 milljónir króna á mánuði í tekjur. Stefán hefur leikið með ýmsum dans- og Jazzhljómsveitum og starfað sem hljóðfæraleikari í leikhúsum, Sinfóníuhljómsveit Íslands og með Stórsveit Reykjavíkur. Hann er jafnframt skólastjóri Tónlistarskóla Árbæjar.

Annar saxófónleikari er í þriðja sæti yfir launahæstu tónlistarmennina en það er Sigurður Hjörtur Flosason. Hann hefur verið atkvæðamikill í íslensku jazzlífi undanfarin ár og hefur verið aðstoðarskólastjóri og yfirmaður jazzdeildar Tónlistarskóla FÍH.

Sigríður Beinteinsdóttir söngkona er í fjórða sæti með tæplega 1,4 milljónir á mánuði miðað við greitt útsvar. Sigríður var á toppi listans í fyrra með 1,9 milljónir.

Af öðrum á listanum má nefna Hreim Örn Heimisson söngvara, sem var með 1,2 milljónir, Árni Páll Árnason, Herra Hnetusmjör, var með tæplega 1,2 og rapparinn Erpur Eyvindarson sömuleiðis.

Helgi Björnsson söngvari og leikari, var með tæplega 1,1 milljón króna og Stefán Hilmarsson var með tæplega milljón á mánuði.

Vegna útgáfu Tekjublaðsins er nauðsynlegt að árétta að um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2024 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og önnur aukastörf og hlunnindi vegna kaupréttarsamninga. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Hafa verður í huga að inni í tekjum getur verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignasparnaði hjá lífeyrissjóði.

Hægt er að kaupa Tekjublaðið hér. Að auki er blaðið til sölu í öllum helstu verslunum landsins.